136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

tæringaráhrif brennisteinsvetnis í andrúmslofti.

104. mál
[14:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. iðnaðarráðherra fyrir ágæt svör og góðar undirtektir við þá tillögu til þingsályktunar sem ég mælti fyrir í gær og er að finna á þskj. 29, 29. mál, um takmörkun á losun brennisteinsvetnis af manna völdum í andrúmslofti. Það urðu ekki miklar umræður um tillöguna í gær, reyndar tók enginn til máls annar en sú sem hér stendur.

Frú forseti. Það er staðfest að brennisteinsmengun frá jarðvarmavirkjunum og kannski sérstaklega á Hellisheiðinni, er miklum mun agressífari eða meiri en mat á umhverfisáhrifum gerði ráð fyrir. Það er gott til þess að vita að Orkuveitan sé að mæla og Landsnet sé að skoða en það sem vantar er að sett verði umhverfismörk. Það þarf, eins og hæstv. ráðherra sagði, að hreinsa brennisteininn úr jarðgufunni og annaðhvort farga honum eða það sem enn þá betra er, að nýta hann. Ég tek undir það sem hann sagði um þau efni og ég nefndi reyndar aðrar leiðir líka í ræðu minni í gær.

Það er mjög brýnt að reikna þann kostnað sem hreinsun brennisteinsvetnisins úr jarðgufunni veldur inn í arðsemisreikninga jarðvarmavirkjana en einnig kostnaðinn við þá eyðileggingu sem mengunin hefur í för með sér. Menn hafa ekki ætlað sér að taka brennisteinsvetnið úr holum sem eru látnar blása, heldur bara úr vinnsluholum og það er atriði sem þarf að skoða líka.

Frú forseti. Það er mikilvægt að það verði brugðist strax við, ekki síst þar sem uppi eru áform um stóraukna, bæði ágenga og (Forseti hringir.) ósjálfbæra nýtingu á jarðvarmasvæðum okkar.