136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

sæstrengir í friðlandi Surtseyjar.

77. mál
[14:27]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka svör hæstv. ráðherra enda þótt hún hafi vikið sér undan því að taka afstöðu til efnisins sem fjallað er um og vísað til þess að ráðuneytið eigi formlega ekki aðkomu að málinu, það sé í höndum Umhverfisstofnunar. Ég sagði áðan að ég teldi að hæstv. ráðherra skuldaði þingi og þjóð skýringar á því af hverju þetta var látið viðgangast átölulaust. Þær skýringar fékk ég ekki.

Hæstv. ráðherra sagði einnig að ekki væri ljóst hver áhrifin kynnu að vera á stöðu Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO. Ég tel ljóst að þetta kunni að hafa mjög alvarleg áhrif á stöðu Surtseyjar á heimsminjaskránni miðað við þá þekkingu sem ég hef á vinnubrögðum á þeim bæ. Það er ótrúlegt en satt og kom ekki fram í máli ráðherra að menntamálaráðherra lagðist í fyrstu umferð eindregið gegn því að farið væri með sæstrengina inn í friðlandið vegna hagsmuna sem hún taldi heimsminjaskrána hafa af því. Síðan var þeirri niðurstöðu breytt, eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega, að höfðu samráði við íslensku heimsminjanefndina sem er, eins og kunnugt er einstök í sinni röð, skipuð þremur stjórnmálamönnum — að því er mig best minnir að morgni kjördags 12. maí 2007.

Ég vil taka undir það sem sagt hefur verið um að vinnubrögðin í málinu lýsa ótrúlegri óvirðingu fyrir umhverfislöggjöfinni og friðlandinu í kringum Surtsey og skráningu eyjarinnar á heimsminjaskrána. Mér finnst mjög dapurlegt að farið hafi verið þvert gegn lögboðnum umsögnum sem fyrir lágu og ég ætla rétt að vona að þetta geti ekki verið fordæmi fyrir annað og meira.