136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

mengunarmælingar við Þingvallavatn.

78. mál
[14:34]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Forseti. Samkvæmt upplýsingum Umhverfisstofnunar hefur Vegagerðin aflað bakgrunnsgilda á tvenns konar hátt. Annars vegar var gerð samantekt á efnasamsetningu í úrkomu á vegum Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands og samantekt gagna frá Rjúpnahæð, Írafossi, Vegatungu, Litla-Skarði og Langjökli og hins vegar var settur upp úrkomumælir við Mjóanes. Ákvörðun um staðsetningu var tekin með hliðsjón af niðurstöðum í samantektinni.

Sýni er tekið vikulega í Mjóanesi og um leið eru tekin sýni á Írafossi til samanburðar og meðhöndluð á sama hátt. Með þessu fæst raunhæfur samanburður á milli staðanna með það að leiðarljósi að nýta bæði tímaseríur frá Írafossi þar sem mælingar hafa farið fram lengi til að meta bakgrunnsgildi sem og til samanburðar eftir að framkvæmdum lýkur.

Fyrirspyrjandi spyr einnig: „Eru mælingar samkvæmt úrskurði ráðuneytisins hafnar og ef svo er, hvar fara þær fram og hvernig er staðið að þeim?“

Í úrskurðinum segir, með leyfi forseta:

„Vegagerðinni er skylt að láta gera mælingar á ákomu loftaðborinnar köfnunarefnismengunar áður en framkvæmdir hefjast og í a.m.k. 5 ár eftir að framkvæmdum lýkur og gera samanburð við aðrar mælingar sem gerðar hafa verið á svæðinu. Vegagerðinni ber að hafa samráð við Umhverfisstofnun um slíkar mælingar og mat á þeim.“

Vegagerðin hafði samráð við Umhverfisstofnun og Veðurstofu Íslands um aðgerðir til að meta bakgrunnsgildi og setja upp mælistöð. Mælistöðin er, eins og áður segir, við Mjóanes og þar er mæld úrkoma og efnasamsetning hennar. Það er mat Umhverfisstofnunar að þetta sé í samræmi við úrskurðinn og til þess fallið að geta metið hvort framkvæmdin og sú aukning á umferð sem til kemur vegna hennar muni auka marktækt ákomu köfnunarefnis á Þingvallavatn. Samráði við Umhverfisstofnun er þó ekki lokið þar sem það tekur líka til mats á þeim niðurstöðum sem fást úr þessum mælingum.

Þá spyr hv. þm. Álfheiður Ingadóttir hvort fyrirhugað sé að mæla styrk köfnunarefnissambanda í andrúmslofti í nágrenni Ólafsdráttar eða við aðra þekkta hrygningarstaði í Þingvallavatni.

Ekki er fyrirhugað að mæla sérstaklega styrk köfnunarefnissambanda í andrúmslofti við Ólafsdrátt eða aðra þekkta hrygningarstaði. Varðandi Ólafsdrátt er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum á vegakerfinu þar og því ekki um að ræða bein áhrif vegna þeirra framkvæmda sem úrskurðurinn nær til. Áhrif þar yrðu einungis vegna aukinnar umferðar um svæðið sem er væntanlega samspil nýs Gjábakkavegar þegar hann hefur verið lagður og þess að Þingvellir eru komnir á heimsminjaskrá eins og kunnugt er.

Til að meta svokallaða þurrákomu köfnunarefnis er oftast stuðst við líkanareikninga og samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins er Vegagerðin að kanna möguleika á að gera slíka útreikninga fyrir Þingvallavatn.