136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

ný bankaráð ríkisbankanna.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég hef verið að vinna að því að gengið verði frá skipun nýrra bankaráða fyrir lok þessarar viku og það verði gert að höfðu samráði bæði við stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka á Alþingi þannig að hvorir tveggja komi að bankaráðum ríkisbankanna.

Bankaráðin sem setið hafa hafa ráðið bankastjóra og þeir síðan ráðið aðra starfsmenn. Ég man ekki í augnablikinu hvort ráðningarsamningar við bankastjórana eru tímabundnir. (Gripið fram í.) Já, ef svo er þá eru þeir til endurskoðunar að þeim tíma liðnum og ef menn vilja endurskoða þá fyrr er sjálfsagt hægt að gera það miðað við almennar reglur sem gilda um tímabundna samninga sem sagt er upp áður en umsömdu tímabili er lokið, en það væri þá í valdi hinna nýju bankaráða að gera það.

Það sem lagt verður til grundvallar í þeim viðræðum sem um þetta fara fram er að fagleg sjónarmið verði höfð til viðmiðunar við val á bankaráðsmönnum, að þar komi að fólk sem hefur reynslu af bankastörfum eða störfum úr viðskiptalífinu sem það geti miðlað af í störfum sínum. Það þrengir auðvitað nokkuð kost þeirra sem velja í bankaráðin að þeir sem hafa þekkingu á bankamálum hafa almennt starfað eða komið að einhverju leyti nálægt gömlu bönkunum og (Forseti hringir.) því þarf, herra forseti, að vanda valið þegar valdir eru fulltrúar í bankaráðin.