136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

meðafli við síldveiðar.

[10:57]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Það er mjög skondið að þessa dagana er nánast ekki hægt að fá nein svör hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra um eitt eða neitt. Ég spurði hann á fundi í landbúnaðar- og sjávarútvegsnefnd um afkomuna í sjávarútvegi, ég spyr hann núna um meðafla við síldveiðar. Ég spurði hann aftur í þinginu um skuldastöðu íslensks sjávarútvegs, ég hef spurt hann um framlegð í íslenskum sjávarútvegi, ég hef spurt hann um fleiri þætti og það er aldrei hægt að fá nein einustu svör frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það er mjög vont fyrir okkur þegar við reynum að átta okkur á hvað er í gangi í samfélaginu að fá aldrei svör við einu eða neinu sem við spyrjum hæstv. sjávarútvegsráðherra að. Það segir manni eitthvað, er hann að fela hlutina, er hann að forðast að segja satt og rétt frá, hvað er í gangi?