136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

peningamarkaðssjóðir.

[11:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég var ekki með neinar dylgjur um af hverju viðskiptaráðherra hefði ekki verið hér. Mér finnst í rauninni undarlegt að hann skuli drepa málinu svona á dreif með því að svara þessari mjög svo brýnu spurningu sem að honum var beint. Á ekki Alþingi að koma að því þegar nýju bankarnir sem eru í eigu ríkisins greiða út um 200 milljarða? Það er heilbrigðiskerfið okkar í þrjú ár, það eru nú engir smáfjármunir.

Að sjálfsögðu hlýtur það að vera mismunun ef nýju bankarnir sjá hagsmunum sínum borgið í því að kaupa eignir af eigin sjóðum en vilja ekki kaupa eignir af sjóðum annarra fyrirtækja. Það er svo augljóst í mínum huga. Það hlýtur að vera skýrt og klárt brot á samkeppnislögum. Að sjálfsögðu fagna ég því að hafnar séu umræður um að jafnframt eigi (Forseti hringir.) að aðstoða sjóðshafa. En ég ítreka fyrri spurningar mínar og mér þætti vænt um ef það kæmu skýr svör við þeim á þeim tíma sem eftir er.