136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:00]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Nú þegar að íslenska fjármálakerfið er nánast hrunið í kjölfar þess að alþjóðahagkerfið lenti í mestu þrengingum síðan í kreppunni miklu á fyrri hluta síðustu aldar er mikilvægast af öllu að missa ekki móðinn — þótt ég sé móður, herra forseti.

Það hefur sýnt sig í gegnum atburðarás síðustu vikna að Íslendingar verða fyrst og fremst að treysta á sjálfa sig. Nú er því ekki rétti tíminn til þess að leggja árar í bát heldur verður að láta hendur standa fram úr ermum. Fyrir utan það að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf tel ég einna mikilvægast að viðhalda framkvæmdastiginu. Það gengur ekki við þessar aðstæður að skera niður framkvæmdir heldur þvert á móti. Eins og uppsagnir seinustu daga bera með sér er byggingargeirinn á góðri leið með að enda eins og fjármála- eða bankageirinn og við því verður að sporna með öllum tiltækum ráðum.

Nauðsynlegt er að ráðast í framkvæmdir við þessar aðstæður sem eru mannaflafrekar meðan á þeim stendur. Um leið þurfa þær helst vera þeim gæðum búnar að auka ekki rekstrarkostnað ríkisins að þeim loknum. Dæmigerðar framkvæmdir af því tagi eru vegaframkvæmdir og alls kyns viðhaldsverkefni.

Það er nauðsynlegt að leggjast yfir það hvort bygging nýs háskólasjúkrahúss sé ekki einmitt verkefni af þessum toga sem vert væri að ráðast í. Það er mannaflafrekt meðan á byggingu þess stendur auk þess sem rekstrarkostnaður spítalans á að lækka þegar ný bygging verður tekin í notkun. Þá gæti nýtt sjúkrahús átt aukin sóknarfæri umfram það sem nú er þegar Evrópusambandið hefur, eins og allt bendir til, samþykkt löggjöf um heimild til þess að sækja heilbrigðisþjónustu óháð landamærum. Einnig gæti verið hagkvæmt að ráðast í byggingu nýrra virkjana sem allra fyrst. Þær færa tekjur inn í þjóðarbúið um leið og þær byrja að framleiða rafmagn.

Reykjavíkurborg hefur gefið ákveðinn tón varðandi auknar framkvæmdir. Önnur sveitarfélög þurfa einnig að horfa til slíkra aðgerða og hefur Kópavogsbær nú þegar hafið vinnu við að láta greina verkefni á vegum bæjarins sem kalla á mikla mannaflaþörf. Eðli málsins samkvæmt er ábyrgð ríkisins þó mest í þessum efnum.

Tillaga mín er sú að ríkisvaldið og sveitarfélög vinni sameiginlega að því að setja fram neyðaráætlun um framkvæmdir hins opinbera og eigi sú áætlun að liggja fyrir innan tveggja vikna, tíminn til stefnu er skammur. Það væri neyðaráætlun sem hefur það að markmiði að draga úr rekstrarkostnaði og mynda svigrúm til framkvæmda. Í því samhengi verður líka að horfa til aukinnar lántöku og ekki er hægt að útiloka skattahækkanir til þess að fjármagna framkvæmdir.

Atvinna sem verður til vegna framkvæmda hefur mikil margfeldisáhrif út í þjóðfélagið og afleidd störf í verslun og þjónustu verða fjölmörg. Er talið að hálft starf fylgi hverju starfi við einstakar framkvæmdir. Hér er því um að ræða mikilvægt mál þegar fjallað er um afkomu heimilanna og koma í veg fyrir að lægðin sem við stöndum nú frammi fyrir í íslensku efnahagslífi verði dýpri en nauðsynlegt er. Ríki og sveitarfélögum ber skylda til þess að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að draga úr rekstrarkostnaði, mynda svigrúm til framkvæmda og tryggja þannig atvinnu sem flestra.

Hæstv. forseti. Við þær aðstæður sem nú eru þurfa fjölskyldurnar í landinu að glíma við margs konar erfiðleika. Skuldsetning heimilanna er of mikil sem þýðir að greiðslubyrði vegna lána rýkur upp þegar krónan fellur um tugi prósenta á nokkrum dögum. Við það snarhækka erlend lán. Verðbólgan rýkur upp vegna hækkunar á innfluttri vöru. Vísitalan hækkar mjög hratt og aukin greiðslubyrði hefðbundinna vísitölulána fylgir svo í kjölfarið. Um leið og það gerist dregst saman í atvinnulífinu og margir missa vinnuna. Atvinnumissir er það versta sem fyrir heimilin getur komið í þessu tilliti.

Við verðum að taka höndum saman og gera allt til þess að atvinnuleysisvofan nái ekki að hreiðra um sig. Auknar framkvæmdir til skamms tíma eru best til þess fallnar. Um leið þarf (Forseti hringir.) að gera allt til þess að laða að erlenda fjárfesta og ekki (Forseti hringir.) hika við að breyta löggjöf okkar þannig að hún sé ívilnandi og treystandi fyrir erlenda aðila. Þá þarf (Forseti hringir.) að bæta umhverfi nýsköpunarfyrirtækja, herra forseti, svo að þau komist sem fyrst á fullt skrið.