136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[13:52]
Horfa

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Húsnæðismálin eru mikilvægt velferðarmál sem snertir hverja einustu fjölskyldu í landinu. Nú eru blikur á lofti og við getum átt von á því að margir muni eiga í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum. Það er hins vegar of stutt síðan helstu áföllin riðu yfir okkur til að við getum gert okkur nákvæmlega grein fyrir hver þróunin verður.

Mikið hefur verið sagt af hálfu ríkisstjórnarinnar. Yfir það var farið m.a. af hálfu málshefjanda og miklar væntingar eru í loftinu. Fólk kallar eftir því að heyra hvaða aðgerðir eru fyrirhugaðar í þessum málum. Það er mikilvægt að reglugerðir um þau mál sem m.a. byggja á ákvæðum neyðarlaganna liggi fyrir sem allra fyrst þannig að allir geti gert sér grein fyrir því hvaða leikreglur eiga að gilda.

Mikilvægt hlutverk stjórnvalda er að beita sér fyrir því að fasteignamarkaður sé virkur og inn á það kom hæstv. ráðherra áðan. Því vakna spurningar m.a. um hvort til standi að gera breytingar á reglum um hámarksfjárhæð lána, ekki síst í ljósi þess að bankarnir hafa ekki verið með á þeim markaði að undanförnu. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra hvort til standi að rýmka reglur varðandi endurbótalán sem ég tel að skipti máli, m.a. varðandi byggingarmarkaðinn, varðandi verkefni við viðhald húsa sem við vitum að þarf að huga að.

Margt fleira má auðvitað ræða í þessu sambandi en mig langar af þessu tilefni að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er staðan varðandi umfjöllun ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, um Íbúðalánasjóð? Í ljósi breyttra aðstæðna á bankamarkaði spyr ég einnig: Mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að ríkisbankarnir dragi til baka þá kæru sem liggur hjá ESA og fari yfir það mál með öðrum hætti í ljósi nýrrar stöðu? Hér er um mjög mikilvægt mál að ræða og áríðandi að fólk botni það sem allra fyrst.