136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[14:00]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta er mikið áhyggjuefni sem við ræðum hér, þ.e. staða íbúðareigenda. Vandi margra heimila er mikill vegna þess ástands sem upp er komið. Lán hafa verið að hækka, afborganir hafa verið að hækka mjög skarpt, ekki síst á erlendum lánum.

Það hefur ýmislegt verið gert. Það hefur verið tekið til þess ráðs að heimila Íbúðalánasjóði að skuldbreyta lánum til 30 ára í stað 15 ára. Stimpilgjald vegna skuldbreytinga á lánum hefur verið fellt niður. Íbúðalánasjóði er heimilt að leigja út íbúðir sem hann eignast. Þetta hefur hæstv. félagsmálaráðherra farið yfir allt. Innheimtuaðgerðir hafa verið mildaðar og svigrúm aukið gagnvart þeim skuldurum sem lenda í vandræðum. Erlend lán hafa verið fryst, þ.e. hluti þeirra, sá hluti þeirra sem snýr að vaxtahlutanum, og einnig hafa sérstakar heimildir til þess að frysta lánin í heild sinni verið fryst.

En betur má ef duga skal. Það er spurning hvort það ætti að taka það upp að heimila greiðslu úr séreignalífeyrissparnaðarsjóðum til innágreiðslu á húsnæðislánum. Það gæti verið ein leiðin til að létta undir. Þá er spurning hvort bönkunum verði ekki gert skylt að lækka dráttarvexti. Dráttarvextir eru gríðarlega háir í dag og þungir fyrir heimilin og það er ekkert lögmál að það sé ákveðinn vaxtamismunur á milli stýrivaxta og dráttarvaxta, það er ekkert lögmál. Í svona háu vaxtastigi geta dráttarvextir verið miklu lægri því að nóg bíta vextir samt yfirleitt.

Þá mætti líka skoða það til skamms tíma að tengja afborgun á lánum tekjum einstakra greiðenda. Það verður auðvitað bara skammtímalausn en það gæti verið hins vegar gott að nota það ráð, t.d. til sex mánaða. (Forseti hringir.) Auk þess vil ég að þegar í stað verði hafinn undirbúningur að því að erlend lán verði áfram fryst ef til þess kemur að krónan verði jafnveik og nú eftir sex mánuði.