136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

málefni fasteignaeigenda.

[14:04]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram sem endurspeglar náttúrlega hversu gríðarlegt vandamál það er sem við stöndum frammi fyrir. En það er verkefni og það er eitthvað sem við þurfum að takast á hendur.

Ég vil sérstaklega taka undir með hv. þm. Magnúsi Stefánssyni og spyrja hæstv. ráðherra: Ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að draga kæru ríkisbankanna sem nú er til meðhöndlunar hjá ESA til baka? Hún er á þann veg að Íbúðalánasjóður eigi að draga sig út af markaðnum. Ég held að þessi umræða hafi sýnt það að mikilvægi Íbúðalánasjóðs hefur aldrei verið jafnmikið og nú. Við sem höfum staðið vörð um starfsemi sjóðsins munum náttúrlega gera það áfram og sé ég að margir vildu Lilju kveðið hafa — ég sé reyndar ekki marga sjálfstæðismenn rétta upp hönd en það er kannski ástæða fyrir því — en mikilvægi Íbúðalánasjóðs er mikið.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því, af því að nú á ríkið alla bankana og ríkið á Íbúðalánasjóð, hvort það þurfi ekki að gæta jafnræðis á milli þeirra sem skipta við bankana og skipta við Íbúðalánasjóð. Hæstv. ráðherra talaði um að fólk ætti að geta breytt lánum sínum á þann veg að Íbúðalánasjóður tæki yfir viðkomandi húsnæði og fólk færi að leigja húsnæði af sjóðnum.

Það er verið að bera fólk út úr íbúðum að kröfu ríkisbankanna í dag. Ég spyr hæstv. ráðherra að því hvort það sé eitthvert réttlæti í því að útbúa sérreglur fyrir þá sem skipta við Íbúðalánasjóð þannig að þeir geti verið áfram í húsnæði sínu á meðan við horfum upp á það, og sjálfur hef ég gert það, að fólk sé borið út að kröfu ríkisbankanna. Hér þarf að stíga mjög varlega til jarðar og ég spyr ráðherrann að því, af því að það er mjög mikilvægt að við fáum svör við því: Ætlar ráðherrann að beita sér fyrir því að það verði farið með sambærilegum hætti að gagnvart skuldurum ríkisbankanna, sem við eigum öll, og Íbúðalánasjóðs, sem er líka í ríkiseigu? Það er mikilvægt (Forseti hringir.) sem og að fá svör við því hvað hæstv. ráðherra ætlar sér að gera varðandi kæru til ESA.