136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:31]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum breytingar á tvennum lögum, annars vegar um atvinnuleysistryggingar og hins vegar um Ábyrgðasjóð launa. Breytingunum er ætlað að bæta möguleika fólks á að halda vinnusambandi eða vera í ráðningarsambandi í hlutastörfum á vinnumarkaði. Hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hefur gert ágætlega grein fyrir málinu þannig að ég ætla ekki að eyða orðum í að fara yfir efni þess í smáatriðum. Ekki verður of oft ítrekað hversu mikilvægt er að menn geti haldið vinnunni því margir segja upp fólki vegna óvissuástandsins, vegna þess að þeir vita ekki hvað er fram undan. Skelfilegt væri ef menn tapa þessu sambandi og missa reynslu út úr fyrirtækjunum og gott starfsfólk sem hugsanlega væri hægt að halda í á meðan á óvissutímum stæði og ráða aftur í fullt starf þegar þeim lýkur, sem vonandi verður fyrr en síðar.

Ég vil taka undir, og það hefur komið fram ítrekað, að við höfum aðeins séð toppinn af ísjakanum. Við eigum eftir að sjá atvinnuleysið aukast verulega og þurfum því að vanda okkur við umfjöllunina og reyna að leita leiða. Þó eru mörg úrræði sem við verðum að grípa strax til svo þau komi til framkvæmda og bæta þá frekar við síðar, eins og hugmyndir hafa komið fram um, þar sem við sjáum að betur þurfi að gera.

Málið er unnið í samráði fulltrúa frá félags- og tryggingamálaráðuneytinu og Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands og þar af leiðandi ætti að verða góð samstaða um það. Ég gerði mér vonir um að hægt yrði að afgreiða málið fyrir þinghlé eða kjördæmaviku, þ.e. að við gæfum okkur viku til að reyna að klára þetta. Ég lagði drög að því að félags- og tryggingamálanefnd kæmi saman, jafnvel í dag, til að senda málið til umsagnar til mjög skamms tíma, fram á miðvikudag, kallaði síðan inn aðila til að heyra sjónarmið þeirra, jafnvel fyrir helgi, og reyndi að afgreiða málið endanlega strax á miðvikudag. Þetta er auðvitað ekki hægt nema samstaða sé um málið og ekkert nýtt komi upp í því, þannig að við skulum sjá hvað okkur miðar en svona hafði ég gert mér vonir um að hægt væri að vinna það.

Frá hv. þm. Atla Gíslasyni hafa þegar komið tillögur, sem við hljótum að skoða bæði hvað varðar lágmarkið, — þarna er um að ræða 50% hlutfall vinnu að lágmarki en hv. þingmaður nefnir 30%, sem væri kannski eðlilegri viðmiðun — og sama er með gildistíma til 1. maí. Báðar tillögurnar þarf að skoða og ræða í félags- og tryggingamálanefnd og sjá hvaða rök eru fyrir akkúrat þessum tímasetningum og tölum.

Sama gildir um breytingar varðandi nám, hv. þingmaður hefur rétt fyrir sér að mjög mikilvægt er að skoða möguleika fólks á að stunda nám á meðan það er atvinnulaust. Sú umræða hefur átt sér stað, m.a. í félags- og tryggingamálanefnd þar sem rætt var hvort til greina kæmi að fólk sem lendir jafnvel í lengra atvinnuleysi verði skyldað í einhvers konar starfsnám, sem boðið verði upp á í símenntunarmiðstöðvum, í Fræðslumiðstöð atvinnulífsins eða í framhaldsskólum. Mikið framboð er nú af endurmenntun og viðbótarnámi í faggreinum sem fólk gæti stundað. Allt þetta þarf að vera til skoðunar en erfitt gæti reynst að ná því á mjög skömmum tíma að færa það inn í þessa lagabreytingu en þó ætla ég ekki að útiloka það og full ástæða er til að reyna það.

Ég vil benda á málefni námsmanna, af því að þau komu til umræðu, að aðgerðir hafa komið til vegna erfiðrar stöðu íslenskra námsmanna erlendis. Einnig hefur verið rætt um þá sem hafa verið í fullu starfi og haft góðar tekjur á liðnu ári og eru að fara inn í námslánakerfið, að skerðing á lánum verði minni en áður, fari úr 10% niður í 5%, til að reyna einmitt að auka og bæta þann möguleika að fara í nám í framhaldi af fullu starfi. Það hefur oft reynst erfitt og eins og hv. þingmaður benti á hefur lánakerfið — þ.e. bankarnir — oft reynst mönnum erfitt.

Ég lýsi yfir stuðningi við málið og mun gera allt sem hægt er til að hraða því og bið bæði nefndarmenn og aðra þingmenn að hjálpa okkur við þá vinnu. Mjög gott væri að fá viðbótartillögur sem allra fyrst sem og þær breytingar sem koma inn í félagsmálanefndina. Ástæða er til að ítreka það, sem almenningi virðist ekki öllum vera ljóst, að þegar mál er sent til umsagnar er öllum heimilt að gera athugasemdir og koma með ábendingar um lagafrumvörpin og eru þær teknar jafnt til álita og frá þeim aðilum sem málið er formlega sent til.