136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[14:37]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar og það er örugglega ekki síðasta málið sem verður lagt fram á Alþingi til að koma til móts við þá erfiðu stöðu sem blasir við í atvinnu- og efnahagsmálum þjóðarinnar. Við þingmenn höfum reyndar kallað eftir því að fá fleiri svona mál sem hægt er að afgreiða með snörpum hætti.

Ég fagna því að mál sé komið fram sem snýr að vanda fyrirtækjanna í landinu en hann er mikill. Í stað þess að vera með fjöldauppsagnir hafa atvinnurekendur brugðið á það ráð að lækka starfshlutfall fólks og frumvarpið mælir fyrir því að Atvinnuleysistryggingasjóður komi til móts við launafólk með því að vega að þó nokkru leyti upp mismun á fyrrverandi starfshlutfalli og núverandi. Mjög mikilvægt er að fólk geti verið áfram virkt á vinnumarkaðnum á meðan við komum okkur út úr þeim erfiðleikum sem blasa við og þess vegna er mikilvægt að frumvarpið verði afgreitt með miklum hraða. Ég sem nefndarmaður í félagsmálanefnd Alþingis lýsi yfir vilja mínum til að vinna hratt og vel að þessu og tek jafnframt undir orð hæstv. ráðherra að mér finnst margt mæla með því að gildistökuákvæðið verði frá 1. nóvember enda voru það mánaðamótin sem hamfarirnar skullu á þjóðinni með þvílíkum þunga að þúsundir urðu fyrir gríðarlegum áföllum með uppsögnum og skertu starfshlutfalli. Ég og við framsóknarmenn styðjum því eindregið að gildistakan verði frá og með síðustu mánaðamótum þannig að þetta komi þeim sem misstu atvinnuna, eða réttara sagt þeim sem starfshlutfallið var lækkað við, til góða, það er mjög brýnt.

Eins og ráðherra fór yfir er málið byggt á tillögum frá samráðshópi félags- og tryggingamálaráðuneytisins, Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaði. Mér finnst vert í þessu samhengi að benda á að við Íslendingar búum við mikið lán að eiga ábyrga verkalýðshreyfingu og ábyrgt atvinnulíf, öfl sem geta talað saman á tímum sem þessum. Trúlega hefur aldrei verið eins mikilvægt fyrir okkur að atvinnulífið, verkalýðshreyfingin og stjórnvöld gangi í takt til að komast út úr því ástandi sem nú er uppi í samfélaginu. Því finnst mér vert héðan úr ræðustól Alþingis að menn heyri það, bæði þingheimur og aðrir, að forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar og stjórnar atvinnulífsins eiga hrós skilið fyrir vinnu síðustu vikna. Þeir hafa haldið krísufundi nær daglega til að koma böndum á ástandið sem blasir við og koma með tillögur að úrbótum. Það skiptir okkur miklu að þessir aðilar skuli vera á vaktinni á erfiðleikatímum.

Við þurfum að standa vörð um réttindi launafólks og halda sem flestum starfandi í samfélaginu á meðan ástandið gengur yfir. Mér finnst líka, eins og kom fram í umræðunni hér áðan, að við, alþingismenn og ríkisstjórnin, þurfum að gæta að jafnræði á milli þegnanna í landinu. Ég benti á það í umræðunni áðan að farið er með skuldunauta á mismunandi hátt. Þó svo að ríkið eigi þrjá stærstu viðskiptabankana og Íbúðalánasjóð er jafnræðis ekki gætt á milli þeirra sem skulda Íbúðalánasjóði og þeirra sem skulda bönkunum og þessa dagana er verið að bera fólk út úr ríkisbönkunum. Ekki verður við það unað að stjórnvöld meðhöndli íslenska borgara sem skulda ríkinu á misjafnan hátt eftir því hvort lánardrottnarnir eru viðskiptabankarnir þrír, ríkisviðskiptabankarnir, eða Íbúðalánasjóður. Almenningur mun ekki sætta sig við það.

Þess vegna fagna ég orðum hæstv. ráðherra áðan þar sem hún talaði fyrir því að við ættum að gæta jafnræðis. Því væri rétt að hæstv. viðskiptaráðherra og handhafar framkvæmdarvaldsins ræddu við bankastjórnir þannig að ekki sé gripið til svo harkalegra viðbragða á þessum erfiðleikatímum. Við þurfum öll að standa saman og það er alveg ljóst að engin samstaða mun nást í samfélaginu um að menn séu beittir slíku misrétti eftir því hvort þeir eru í viðskiptum við Íbúðalánasjóð eða viðskiptabankana. Við þurfum að hafa það í huga því hlutirnir gerast nú mjög hratt á Íslandi og margt gerist daglega sem hefði jafnvel tekið margar vikur fyrir stuttu síðan.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Atla Gíslasyni um stöðu námsmanna og við höfum rætt hana í þinginu á síðustu vikum. Reyndar var það svo að menntamálaráðherra sagði í fyrirspurnatíma á haustþinginu að ekki ætti að bæta stöðu námsmanna sérstaklega, en að sjálfsögðu blasti það við okkur öllum að þess þyrfti. Sem betur fer hefur ríkisstjórnin örlítið tekið sig á í þeim efnum en ég tel að betur þurfi að gera því nú mun fólk á öllum aldri leita sér menntunar í auknum mæli. Eins og staðan er, að fólk fái lánin greidd eftir á í kannski 26%–28% vaxtastigi — yfirdráttarvextirnir eru nú ekkert smáræði — er ljóst að við þurfum að koma til móts við það með einhverjum hætti. Ég hvet því ríkisstjórnina í þessari umræðu — því vinnumarkaðsmál tengjast menntakerfinu vegna þess að fólk hverfur af vinnumarkaðnum inn í skólana, og ef við viljum stuðla að því að fólk verði hér á landi eftir að það missir vinnuna verðum við einfaldlega að fara í breytingar sem þessar og gera þann kost fýsilegan. Annars lendum við í því sama og Færeyingar á sínum tíma, að fólk leiti sér í síauknum mæli að vinnu annars staðar. Við viljum það ekki og þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hindra að unga fólkið fari í miklum mæli úr landi. Það yrði gríðarlegur skellur því að það er kynslóðin sem þarf trúlega að borga reikninginn vegna áfallanna sem hafa gengið yfir landið að undanförnu. Ef fólk 20–40 ára fer úr landi hver á þá að borga reikninginn? Við þurfum að hafa skýra heildarmynd í þessu.

Vegna orða hv. þingmanns hér áðan um stofnun framhaldsskóla í Ólafsfirði, þá voru það vissulega misvísandi skilaboð frá ríkisstjórninni að fresta undirskrift um stofnun skólans og í raun og veru kolröng skilaboð að mínu viti. Ég vil upplýsa og vera ærlegur í því að fundur var með menntamálaráðherra í gær þar sem stofnuð var byggingarnefnd og skólanefnd og gefin yfirlýsing um að skólastarf framhaldsskóla við utanverðan Eyjafjörð hefjist haustið 2009. Menntamálaráðherra verður að njóta sannmælis í því að hún er öll af vilja gerð til að þessi skóli verði stofnaður. Tilkynning um frestun á undirskrift um stofnun skólans eru ekki góð skilaboð.

Það eru ekki heldur góð skilaboð frá ríkisstjórninni að segjast hafa skrúfað fyrir allar framkvæmdir. Að búið sé að fresta samgöngubótum við Vopnafjörð og Vaðlaheiðargöngum. Ég hitti dúkara á Ólafsfirði í gær sem var heima hjá sér um miðjan dag, maður sem hefur unnið 8–10 tíma vinnudag, og ég spurði hann af hverju hann væri heima. Staðreyndin er sú að allan efnivið vantar, menn geta ekki unnið lengur, það eru hvorki til dúkar né flísar í landinu. Síðan sjáum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að hætta eigi við allar frekari framkvæmdir á hennar vegum, það eru kolröng skilaboð til atvinnulífsins og það verður að vinda ofan af þessari vitleysu, hæstv. fjármálaráðherra, að hið opinbera ætli að skrúfa fyrir allar framkvæmdir.

Ég vil benda á að meiri hlutinn í Reykjavíkurborg hefur lýst yfir að fara eigi í vinnuaflsfrekar framkvæmdir upp á sex milljarða í Reykjavík á næsta ári. Á sama tíma kemur ríkisstjórnin fram (Gripið fram í.) — þjóðstjórnin í Reykjavík — en á sama tíma kemur ríkisstjórnin fram og ætlar að skrúfa fyrir allar opinberar framkvæmdir á landsbyggðinni. Menn verða náttúrlega að gæta varúðar í slíkum yfirlýsingum og taka slíkt til baka.

Hæstv. forseti. Ég fagna frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra og minni á, af því að við ræddum um þjóðstjórn í Reykjavík, að mikilvægt er að þingheimur standi saman og við öll á þessum erfiðleikatímum. Herkostnaðurinn við þetta frumvarp getur numið allt að 350 millj. kr. Það er herkostnaðurinn fyrir því að fólk haldi störfum sínum og verði áfram á landinu, það skiptir miklu máli. Við þurfum líka að láta flokkapólitík dálítið lönd og leið í þessari umræðu og það olli mér ákveðnum vonbrigðum á fundi félagsmálanefndar í morgun — fyrirgefið þið, viðskiptanefndar — þar sem fulltrúar atvinnulífsins lýstu því að krísufundir væru í gangi á milli aðila vinnumarkaðarins og fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna, eins og ástandið í dag komi stjórnarandstöðuflokkunum ekkert við. Að sjálfsögðu þarf að halda öllum upplýstum og ég hef ekki orðið var við annað, herra forseti, en að við séum öll hér af vilja gerð til að reyna að leysa það erfiða ástand sem við okkur blasir en því miður verðum við vör við mjög litla tilburði af hálfu stjórnarflokkanna að koma til móts við okkur í stjórnarandstöðunni í samræmdum aðgerðum til þess að mæta aðsteðjandi vanda. Það má þó meiri hluti framsóknarmanna og sjálfstæðismanna í Reykjavíkurborg eiga að þar er virkileg þjóðstjórn og þar hafa allir lagst á eitt til að menn geti orðið sáttir um hvaða skref eigi að stíga næst og ég vona svo sannarlega, fyrst ríkisstjórnin vill viðhafa svo takmarkað samráð við okkur í stjórnarandstöðunni, að henni vegni vel í þeim erfiðu málum sem við okkur blasa nú þegar.

Ég, eins og ég sagði hér áðan, herra forseti, lýsi yfir fullum stuðningi við þetta frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar og tel brýnt að það fari hratt í gegnum þingið og verði afturvirkt þannig að þeir sem starfshlutfall var skert hjá um síðustu mánaðamót fái greiðslur úr atvinnuleysistryggingasjóði því á mörgum heimilum á Íslandi í dag eru erfiðleikar og við þurfum að koma til móts við þá.