136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:18]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil koma með örfá atriði inn í umræðuna um Atvinnuleysistryggingasjóð og breytingar á lögum um greiðslur úr honum. Ég vil draga athyglina að því sem lýtur að sjálfstætt starfandi fólki. Ákveðinn hluti þessara laga lýtur að sjálfstætt starfandi einstaklingum, bændum, sjómönnum, mönnum sem reka lítil og stærri fyrirtæki en vinna þar sjálfir og hafa viðurværi sitt af því. Þeir geta verið starfandi hjá einkahlutafélagi sem þeir hafa stofnað um fyrirtækið og lúta þá lögum um almenna hlutann, þ.e. eins og launþegar, og greiða með eðlilegum hætti inn í sjóðinn. Sumir atvinnurekendur greiða inn í Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga sem er í raun hluti af sama fyrirkomulaginu þó að um hann sé sérstök stjórn.

Margir sjálfstætt starfandi einstaklingar geta verið í launaðri vinnu meðfram fyrirtækjarekstrinum. Fyrirtækið er ef til vill ekki það stórt að það skapi nauðsynlegar tekjur og jafnframt getur atvinnumunstrið verið byggt þannig upp að viðkomandi rekur fyrirtæki sitt en vinnur að hluta til utan þess. Þá greiðir hann til hins almenna hluta Atvinnuleysistryggingasjóðs en sem atvinnurekandi greiðir hann til Tryggingasjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Viðkomandi einstaklingur getur misst starfið sem hann vinnur meðfram rekstrinum og vill þá gjarnan sækja rétt sinn til atvinnuleysisbóta úr hinum almenna hluta Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það hefur ekki reynst svo auðvelt. Ég þekki það af umræðunni um bændur og þykist vita að hið sama gildir þá um aðra sjálfstætt starfandi atvinnurekendur. Ef þeir missa launþegavinnuna eiga þeir ekki greiðan aðgang að atvinnuleysisbótum úr þeim tryggingasjóði. Til þess að fá greitt úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga þurfa þeir yfirleitt að leggja inn virðisaukaskattsnúmerið eða sýna fram á að þeir hafi hætt rekstri. Við viljum að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti stundað rekstur sinn eins og nokkur kostur er, hvort sem hann skapar 100% framfærslu eða 50% framfærslu, sé kerfið ekki því andsnúið.

Ég vil þess vegna biðja nefndina, þegar hún fær þetta mál til meðferðar, að fara sérstaklega ofan í þann hluta sem lýtur að sjálfstætt starfandi einstaklingum. Annars eru það réttindi þeirra innan þess sjóðs og hins vegar réttindi þeirra gagnvart almenna hlutanum, hafi þeir verið launþegar að hluta til og greitt sitt gjald þar. Ég veit að þeir eiga nú ekki greiðan aðgang að þeim hluta þótt þeir missi vinnuna. Við getum hugsað okkur að bóndi sem rekur sitt eigið bú en er jafnframt í 50% starfi utan búsins, missi þá vinnu. Það er býsna alvarlegt en þó er ekki auðvelt fyrir hann að sækja rétt sinn inn í almenna hlutann þó að hann hafi greitt þar inn nema hann skili inn virðisaukaskattsnúmerinu eða leggi af reksturinn. Þá er málið skoðað heildstætt.

Þetta vildi ég draga inn í umræðuna. Mér sýnist að frumvarpið tæpi á þessu, að þetta taki að nokkru leyti til 22. gr. þar sem verið er að fjalla um þetta mál að hluta en ekki þannig að skýrt sé.

Ég tek undir umræðuna um rétt og möguleika fólks til að fara í nám og fá atvinnuleysisbætur ef það missir vinnuna. Ég vil líka vekja athygli á því að fólk sem fer úr launaðri vinnu, hvort sem það missir hana eða hættir og fer í nám, á ekki svo greiðan aðgang að Lánasjóði íslenskra námsmanna vegna þess að tekjuviðmiðið snýr yfirleitt að árinu á undan. Þá getur liðið heilt ár þangað til námsmaður fær rétt til láns úr Lánasjóði íslenskra námsmanna þó að hann hafi verið tekjulaus það tímabil sem hann stundaði nám. Rétt fólks sem fer úr vinnu til náms þarf að skoða, ekki aðeins með tilliti til atvinnuleysistryggingabóta heldur einnig réttindi til námslána, að námslánarétturinn verði strax virkur.

Að lokum vil ég taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um mikilvægi þess að atvinnurekendur og launþegar — sérstaklega atvinnurekendur um þessar mundir — séu sér meðvitaðir um félagslegar skyldur sínar og ábyrgð. Ég held að það sé liðinn sá tími sem hægt er að umbera — og ég umbar hann náttúrlega aldrei — yfirlýsingar flokksbræðra hv. þm. Péturs H. Blöndals sem lýstu því yfir að hver væri sjálfum sér næstur, hver væri sinnar gæfu smiður, eins og við höfum heyrt.

Ég minnist orða eins formanns bankastjórnar skömmu eftir að bankarnir voru einkavæddir þegar hann var spurður hvaða félagslegar skyldur bankinn hefði núna. Hann svaraði á þá lund að skyldur bankans og hans sem stjórnarformanns í bankanum væru þær einar að hámarka arð hluthafanna. Þær væru þær skyldur einar sem hann bæri með sér, að hámarka arð hluthafanna. Mér er það minnisstætt. Á þessum grundvelli hefur efnahagslífið að stórum hluta verið rekið á undanförnum árum, á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins hvað þetta varðar. Það er fagnaðarefni að hv. þm. Pétur Blöndal skuli nú draga sterkt inn í umræðuna hin félagslegu gildi og félagslega ábyrgð atvinnulífsins.

Ég vil einnig vara við því þegar fyrirtæki segja upp fólki, lækka laun eða ganga með öðrum hætti á starfsréttindi þeirra, að fara nú að standa vörð um réttindi fólks þannig að útilokað sé að einstök fyrirtæki geti nýtt sér hið ótrygga ástand til að skerða starfsréttindi þess. Þegar vatnið er gruggugt og staðan erfið eins og nú er geta hinar ýmsu hvatir fengið útrás hvað það varðar. Ég er ekki að segja að það hafi átt sér stað en það er samt ástæða til að vera á verði, að ekki sé verið að skerða starfshlutföll eða störf, stilla fólki upp við vegg og láta það skrifa upp á nýja kjarasamninga o.s.frv. án þess að farið sé að lögum hvað það varðar.

Frú forseti. Ég árétta að mikilvægt er við meðhöndlun á þessu frumvarpi í nefnd að hugað verið rækilega að stöðu þeirra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar og að atvinnuleysisbótarétti þeirra. Einnig þeirra sem eru að hluta til sjálfstætt starfandi einstaklingar og að hluta til launamenn og hafa greitt í Atvinnuleysistryggingasjóð á þeim forsendum. Ég tek undir að því verði hraðað svo sem kostur er.