136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:38]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka það fram að Lánasjóður íslenskra námsmanna endurkrefur lán sem hann veitir en atvinnuleysisbætur eða atvinnuleysislaun eru ekki endurkræf og ég er að tala um að bæta stöðu atvinnulausra sem fara í nám.

Það er talað um tímapressu og ég skil það mætavel að það þurfi að afgreiða þetta frumvarp hratt og örugglega, en frumvarpið er afturvirkt og það er í góðu lagi gagnvart stjórnarskránni af því að það er ívilnandi, það á því að gefast tóm til að vinna að þeim hugmyndum sem ég lagði hér fram, fullt tóm, ef farið verður í það eins og menn hafa boðist til, með oddi og egg á kvöldin og um helgar, þá er það ekkert mál.

Ég spyr hæstv. ráðherra líka í framhaldi af þessu: Er hún tilbúin til þess að setja inn í frumvarpið heimildir sem veita víðtækari undanþágur frá námsákvæðum laganna, m.a. skilyrðum og skilgreiningum, (Gripið fram í.) þ.e. að settar verði víðtækari heimildir inn í frumvarpið um undanþágur frá námskilgreiningum, námsskilyrðum laganna? Í því sambandi nefni ég 14. gr., 25. gr. og aðrar greinar sem ég vék að í fyrri ræðu minni, og að sú undanþága verði virk til bráðabirgða þar til verði búið að samtvinna og setja betri ákvæði í lög um atvinnuleysistryggingar og samtvinna það og samhæfa við lánasjóðsreglur og annað.

Ég vil líka segja að það eru svo ótrúlega mörg menntunarúrræði þegar til staðar í landinu. Ég nefni bara símenntunarstöðvar um allt land, þær sem ég þekki best í mínu kjördæmi, virkar og mjög öflugar stöðvar, og þær mæta þeim þörfum sem eru brýnastar í menntun í dag, þ.e. þörfum kvenna. Konur eru 70–80% af námsmönnum símenntunarstöðva og oft vill nú atvinnuleysi bitna harðast á þeim. Ég ítreka því það, frú forseti, hvort ráðherra leggist gegn því að settar verði víðtækari undanþáguheimildir en núgildandi lög um atvinnuleysistryggingar heimila.