136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[15:42]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör. Það er bara orðalagið „ef Atvinnuleysistryggingasjóður getur“ — hann „verður“, hann verður í stöðunni hvernig sem að því verður farið. Ríkissjóður verður að skuldsetja sig mjög verulega næstu missirin.

Það sama er sagt um Íbúðalánasjóð, „ef hann getur“. Maður veltir því fyrir sér, en hann „verður“. Auðvitað byggir þetta allt á því hvort ríkissjóður tekur þá ákvörðun, eða ríkisstjórnin tekur þá ákvörðun að borga fyrir það sem ég tel glæpaverk úti í Bretlandi, að borga Icesave-reikningana. Er það skylda ríkisins og samfélagsins að borga fyrir slíkt, fyrir það sem ég kalla glæpsamlega reikninga — og ég kalla það glæpsamlega reikninga — einkafyrirtækis? Hvað mundi ríkissjóður gera ef þetta einkafyrirtæki væri á Íslandi? Á ríkissjóður að ganga þar inn? Það er hugsanlegt en þetta auðvitað ræðst allt af því hvernig fer um þessa reikninga.