136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[15:53]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru aðeins örfá atriði sem ég vildi bæta við orð hv. þm. Atla Gíslasonar. Ég vil árétta það sem hann lagði áherslu á, þ.e. gagnsæi vinnunnar. Það gagnsæi á að gilda jafnt um uppgjör og vinnu við þrotabú bankanna, sú vinna sem þar fer fram á að vera mjög gagnsæ og kjör þeirra sem að því koma. Menn eru nú þegar farnir að velta fyrir sér kostnaðinum sem fellur á ríkið og ríkissjóð vegna vinnu þeirra aðila sem núna fást við yfirtöku bankanna og skil. Við heyrum að þetta séu einstaklingar sem starfa hjá hinum og þessum fyrirtækjum eða embættismenn. Ef þetta eru fyrirtæki er það þá útseld vinna sem þarna er verið að vinna? Við þekkjum fordæmi í fortíðinni þegar farið var í einhverja hliðstæða vinnu eða úttekt að þá var keypt vinna af einhverjum stofum. Frægur er Landssíminn á sínum tíma þegar forustumenn fyrirtækisins áttu jafnframt fyrirtækin sem þeir höfðu samið við til að gera úttektina. Ég er ekki að segja að það eigi við þarna en það er svo mikilvægt að allir þessir þættir séu hreinir og uppi á borðum. Næg er nú tortryggnin og henni er aðeins eytt með því að allt sé uppi á borðum, öll vinna og allt sem þessu tengist sé upplýst fyrir fram og af hreinskiptni. Á það hefur mikið skort þann mánuð sem liðinn er síðan þessi aðgerð var gerð.

Sama á líka við um nýju bankana sem þetta frumvarp tekur aðeins lítið til og ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki sé að vænta sérstaks lagafrumvarps um nýju bankana sem komnir eru í allt annað umhverfi en eldri viðskiptabankarnir voru. Þeir eru orðnir bankar í opinberri eigu og þó svo að ég sé ekki að segja að það réttlæti endilega að það þurfi önnur lög þá vitum við að einkavæddu bankarnir fengu með sér í vöggugjöf alls konar leynd. Það var leynd yfir kjörum, leynd yfir starfseminni, allt var hjúpað leynd. Það var talinn styrkur nýfrjálshyggjunnar að allt væri unnið í leynd sem hefur síðan reynst hið mesta glapræði fyrir þessa starfsemi.

Ég spyr: Verður ekki núna strax m.a. kveðið á um áður en nýju bankarnir taka til starfa sem slíkir, þ.e. með bankastjórn og nýjum bankastjórum eða nýráðnum hvernig sem farið verður með þá sem núna sitja, að upplýsingalög og almenn stjórnsýslulög gildi hvað varðar starfsemina sjálfa og rekstur bankanna? Verður starfsleyfið takmarkað eða afmarkað eða ætla menn að láta nýju bankana fara af stað bæði með viðskiptabankaheimild og heimild til fjárfestingarstarfsemi eins og fyrrverandi bankar höfðu? Það skiptir máli að búa þessum nýju bönkum umgjörð strax í upphafi, það er miklu óþægilegra og erfiðara að gera það eftir á. Ég vil því varpa þeim spurningum fram til hæstv. ráðherra hvort ekki komi nú þegar sérstök lög um þessa banka og fjármálastarfsemi á þeirra vegum, bæði í ljósi breyttra aðstæðna á fjármálamarkaði og reynslu af því hvernig fór með þeim lögum sem gilt hafa um þá og til að byggja upp fjármálastofnanir sem geti endurvakið traust bæði almennings og viðskiptavina.