136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[16:08]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil aftur víkja að mikilvægi þess að um hina nýju banka verði sett sérstök lög. Ég tel að hafi fyrrverandi bankar getað gert og hagað sér eins og þeir gerðu í skjóli laga, sé eitthvað að lögunum. Þess vegna tel ég ábyrgðarhlut ef nýju bankarnir fara af stað án þess að lögum hafi verið breytt og Alþingi farið yfir þær misfellur og mistök sem gerð hafa verið í eldri lögum. Gildir þar einu hvort um ríkisbanka eða aðra banka að ræða þó að það eigi ekki hvað síst við um ríkisbankana.

Ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra og spurningu hv. þm. Atla Gíslasonar: Munu upplýsingalög gilda um stjórn og stjórnsýslu bankans og innri störf hans? Munu þau gilda um starfsemi bankans sem stofnunar? Ég á ekki við einhver bein einstaklingsbundin viðskiptamál. Mér finnst mjög mikilvægt að fá það alveg á hreint. Hvað með starfskjör, ráðningarkjör og laun starfsmanna ríkisbankanna, munu þeir fá stöðu sem opinberir starfsmenn? Munu kjör þeirra og ráðningar taka mið af ráðningum og starfsréttindum opinberra starfsmanna? Mér finnst mjög mikilvægt að það sé upplýst strax. Ég tel að það eigi að vera svo og það eigi líka að vera skýrt. Það á ekki að vera val einhvers bankaráðs sem ég tek alveg undir að þurfi að koma sem fyrst á laggirnar. Þessir þættir eiga að vera ákvörðun Alþingis.