136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:43]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessu málsefni hér. Það er alltaf nauðsynlegt að brydda upp á umræðu um ný tækifæri í atvinnumálum og ekki síst á tímum eins og þessum. Ég vil hins vegar segja það sem ég hef oft sagt við svona tækifæri að það er ekki svo um þorskeldið að þar sé fugl í hendi en þar eru sannarlega tækifæri. Hins vegar er ljóst að þetta er áhættusamur atvinnurekstur sem krefst mikils fjármagns og mikillar þekkingar.

Eins og við vitum hafa þorskafurðir verið stærsta einstaka útflutningsafurð þjóðarinnar í sjávarútvegi undanfarna áratugi og mikil þekking byggst upp innan fyrirtækja í sjávarútvegi, bæði í veiðum, vinnslu og markaðssetningu á þorskafurðum.

Ýmsir aðilar og nokkur af stærri sjávarútvegsfyrirtækjum landsins hafa stundað þorskeldi hér við land. Eldisframleiðsla þessara fyrirtækja byggist að langmestu leyti á áframeldi og eldi fangaðra seiða sem hafa verið veidd í Ísafjarðardjúpi. Niðurstöður þessa tilraunaeldis eru í stuttu máli þær að fyrirtækin telja rétt í ljósi þeirrar reynslu sem þau hafa aflað sér að næstu skref verði stigin með það að markmiði að framleiðsla í þorskeldi verði aukin verulega frá því sem nú er.

Það er talið ólíklegt að veiðar á smáþorski og/eða seiðum sem verði alin áfram sé raunhæfur möguleiki til þess að auka framleiðslu á eldisþorski. Eini raunhæfi möguleikinn til að hefja stórfellda framleiðslu á þorskseiðum er í sérhæfðri seiðastöð og ég er sammála því áliti. Uppbygging þorskeldis á Íslandi í atvinnuskyni er mjög mikilvægt en um leið áhættusamt langtímaverkefni sem krefst samstillts átaks einkafyrirtækja og opinberra aðila.

Ef við setjum fram tilgátu um að framleiðsla eldisþorsks á Íslandi verði um 20 þús. tonn á árinu 2015, sem er að mínu mati raunhæft markmið, má áætla eftirfarandi: Áætlaður kostnaður við að byggja upp lífmassa eldisþorsks vegna framleiðslu á 20 þús. tonnum er um 6 milljarðar kr. en sá kostnaður mun að öllu leyti lenda á eldisfyrirtækjunum sjálfum. Auk þess kemur kostnaður við uppbyggingu seiðastöðvar sem gæti orðið sameiginlegt verkefni eldisfyrirtækja sem hið opinbera styðji. Það er nauðsynlegt að góð samræming verði í uppbyggingu seiðaframleiðslu og matfiskseldis til þess að fjármagnið nýtist sem best.

Ég vil í þessu sambandi líka leggja áherslu á að það er eðlilegt að hið opinbera komi svo sérstaklega að því að efla rannsóknir og þróun, einkanlega á þeim sviðum sem leiða til bættrar afkomu og aukins vaxtarhraða í þorskeldi. Það er líka svo að það er eðlilegt að þessi uppbygging eigi sér ekki síst stað á þeim svæðum sem eru í nágrenni við þorskeldi þar sem það hefur verið að eflast. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður benti á að það má segja að á vissan hátt sé vagga þorskeldisins í dag á Vestfjörðum, sérstaklega í Ísafjarðardjúpi, og það er ánægjulegt. Það hefur m.a. orðið til þess að byggst hefur upp sérfræðiþekking, rannsóknar- og vísindaþekking á Ísafirði, í þróunarsetrinu þar, hjá þeim rannsóknastofnunum sem þar starfa sem hefur auðvitað bæði verið til ávinnings fyrir greinina og fyrir það byggðasvæði sérstaklega.

Stærri sjávarútvegsfyrirtæki munu örugglega gegna lykilhlutverki í uppbyggingu þorskeldis hér á landi á næstu árum en þó með aðkomu hins opinbera að nokkrum þáttum. Þetta er fjármagnsfrek starfsemi. Hún kostar mikla þolinmæði og mikla þekkingu og það er löngu ljóst að þetta er ekki eins og menn töldu í upphafi, að hægt væri að kasta nokkrum seiðum í kví og ala þau síðan á einhverjum afskurði með litlum tilkostnaði. Það er ekki þannig, þetta krefst mikillar þekkingar á kynbótastarfsemi og mikillar þolinmæði.

Ástæða er til að undirstrika að uppbygging í þorskeldi í atvinnuskyni er áhættusamt langtímaverkefni þar sem Norðmenn hafa núna ótvíræða forustu. Þess vegna tel ég að kanna ætti til hlítar hvort norsk fiskeldisfyrirtæki sjái sér hag í því að taka þátt í uppbyggingu þorskeldis hér á landi og færa til okkar þekkingu sem við höfum ekki á að skipa eins og málum er nú háttað.

Það er hins vegar afar mikilvægt að árétta eitt og það er sú reynsla sem við höfum fengið úr fortíðinni. Hún er sú að þessi uppbygging þarf auðvitað að vera á forsendum greinarinnar sjálfrar, það getur ekki verið hlutverk ríkisvaldsins að draga þann vagn. Hins vegar hefur ríkisvaldið hlutverki að gegna. Við þurfum að móta grunngerð fyrir þessa uppbyggingu og þar með tel ég vel verjandi að við tökum þátt í þeirri uppbyggingu með hinni nýju atvinnugrein, svo sem með einhvers konar stuðningi við uppbyggingu seiðaeldisstöðvar. Þetta er hins vegar mál sem við þurfum að ræða nokkuð frekar. Ég skipaði nefnd fyrir um ári síðan sem skipuð er fulltrúum mikilla sérfræðinga og þeirra sem einna gleggst þekkja til í þessari atvinnugrein. Hún hefur unnið mjög vel. Ýmislegt hefur orðið til þess að tefja lokafrágang skýrslu nefndarinnar en ég á von á að skýrslan og starf nefndarinnar verði opinbert innan tíðar þegar hún skilar verki sínu af sér til mín.

Ég ítreka að hér er um að ræða mjög spennandi tækifæri sem við eigum ekki að láta fram hjá okkur fara. Það væri að mínu mati algjörlega óverjandi. Hins vegar er ljóst að þetta kostar fjármuni og er áhættusamt en (Forseti hringir.) það er einfaldlega svo að það verður enginn árangur, engar framfarir nema menn taki líka áhættu.