136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

þorskeldi.

[15:53]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að þessi umræða er tekin. Það veitir ekkert af því að ræða um þá möguleika sem felast í því að auka arðsemi í íslensku þjóðfélagi og möguleika sem við höfum vegna þess sem fiskstofnarnir geta gefið af sér. Þorskeldi í dag byggist á þrenns konar möguleikum, þ.e. að veiða seiði þriggja til fimm sm löng í september til október á sínum náttúrulegum svæðum. Í öðru lagi er klak og eldi seiða og seiðaframleiðsla sem er reyndar talin forsenda þess að verulegur vöxtur geti orðið í þorskeldinu í framtíðinni og þriðja aðferðin er að veiða þorsk eins til þriggja ára gamlan og setja hann áfram í eldi í sjókvíum. Það er verulegur mismunur á því hvernig að þessu er staðið og hvernig fæðunám fiskanna er eftir því hvort um seiði er að ræða eða hvort um þá fiska er að ræða sem teknir eru úr náttúrunni. Það er í raun og veru ekki hægt að ala þorskinn á þurrfóðri, sem er nauðsynlegt til að efla þessa atvinnugrein verulega, nema því aðeins að um seiði sé að ræða í upphafi því að þorskurinn sem er tekinn frá náttúrunnar ríki tekur ekki endilega við þurrfóðrinu.

Þetta eru atriði sem menn verða að skoða mjög vandlega. Það sem ég vildi leggja inn í umræðuna er að ég tel að það þurfi að skoða mjög gaumgæfilega hvernig við stundum veiðar á tveggja til þriggja ára gömlum þorski til framhaldseldis. Það kann að vera varasamt að stunda þær veiðar af miklum krafti á sömu stöðunum ár eftir ár eða innan sömu fjarða og á sömu slóðum því við vitum að þorskstofnarnir eru fleiri en einn og fleiri en tveir við landið og þar með getur sú nýting að veiða ungþorsk í áframeldi haft veruleg áhrif.