136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:36]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Samfylkingin mun samþykkja þetta frumvarp. Það er alveg á kristaltæru og ég er búinn að koma með rökin fyrir því. Það er einfaldlega vegna þess að við viljum ekki horfa upp á litlar útgerðir, eins og ég var að segja frá (GMJ: Hvaða bull er þetta?) áðan. Þú getur verið með þinn bát, segjum að það sé kominn 17. ágúst og þú átt eftir að veiða mörg tonn af þorski eða ýsu og sérð ekki fram á að geta veitt það. Á það þá bara að detta dautt niður? Er þá ekki réttlátara að þeir sem eiga þennan fisk fái að flytja hann aðeins yfir árið?

Ég er hins vegar alveg til í viðræður og umræðu í sjávarútvegsnefnd um hvort setja eigi einhverjar klásúlur um að ef menn færi svona fisk á milli ára fái þeir ekki að leigja hann. Það sé þá bara ljóst. Það skulum við taka til umfjöllunar í nefndinni, ég er algjörlega opinn fyrir þeirri umræðu og að skoða þau mál. Því þetta er ekki hugsað til þess að farið verði að flytja fisk á milli ára til þess að leigja hann og til þess að braskað verði með hann. Þetta er hugsað til þess að hagræða fyrir þeim sem hefur kannski ekki tekist að ná þeim afla (GMJ: En leiguverð?) sem þeir ætluðu sér, kannski vegna þess að báturinn bilaði eða af því að það kom eitthvað upp á. Þetta eykur sveigjanleikann fyrir þá.

Ég hef tilhneigingu til að sjá þetta frumvarp, sem sett er hér fram í tveimur greinum, að það sé til hagræðingar í því kerfi sem við búum við og ég vildi hins vegar gjarnan að væri breytt. Ég legg alltaf mín orð í það, hvort sem er í mínum flokki eða annars staðar.