136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:57]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er kunnugt um skoðun hv. þingmanns. Hún hefur komið fram í nefndinni, svo vægt sé til orða tekið, og reyndar hér á hv. Alþingi líka. Rétt er að við framsóknarmenn komum mjög að því að koma sjávarútveginum af brauðfótunum sem hann var á þegar kerfið var lögfest.

Það má segja að á þeim tíma hafi útgerðirnar í landinu allar verið á hausnum og ekki var áfram haldið með það fyrirkomulag sem áður var. Þá varð þetta niðurstaðan og síðan hafa verið gerðar ýmsar breytingar á kerfinu. Þó svo að Framsóknarflokkurinn hafi átt upptökin og átt sjávarútvegsráðherrann þegar lögin voru fyrst sett hafa æðimargir stjórnmálaflokkar setið í ríkisstjórnum síðan og ekki alltaf Framsóknarflokkurinn. En einhverra hluta vegna hafa menn ekki breytt fyrirkomulaginu.

Mér dettur ekki í hug að það verði frekar gert núna þó svo að hv. samfylkingarmenn séu með einhverjar dylgjur um að þeir ætli að vinna að breytingum á kvótakerfinu. Auðvitað verður því ekki breytt. Ég trúi því að á næsta ári þegar þrýstingurinn eykst á þann flokk — og ég veit að ég fer ekki alveg að þingsköpum núna með að beina orðum mínum til einhvers sem ekki hefur tækifæri til þess að svara mér. En ég tel ekki miklar líkur á að fiskveiðistjórnarkerfinu verði gjörbreytt á þessu kjörtímabili.