136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[16:59]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Sjávarútvegur á brauðfótum árið 1984. Á hausnum. Hvar er sjávarútvegurinn í dag? Gaman væri að sjá muninn á skuldum sjávarútvegsins 1984 þegar kvótakerfið var tekið upp og skuldum sjávarútvegsins í dag. Þar er töluverður munur á og allt í óveiddum fiski, sem er reyndar orðinn verðlaus í dag. Fyrir einu og hálfu ári var þorskkílóið metið á 4.200 kr. Það var bróðurparturinn af veðum. Í bankakerfinu var óveiddur fiskur. Óveiddur fiskur með sporð sem gat synt í burtu og gert hvað sem er. Hann var tekinn að veði.

Í dag er hann nánast verðlaus. Veðin sem eru á bak við skuldir sjávarútvegsfyrirtækjanna í dag eru ekki til staðar. Þau eru ekki til staðar. Þau eru verðlaus. Veðköll þarf nánast á öll sjávarútvegsfyrirtæki í landinu. Ætli það séu ekki á milli 90 og 95% af sjávarútvegsfyrirtækjum sem þurfa að skaffa veð til að eiga fyrir skuldum í nýju bönkunum. Svo talar þú um að sjávarútvegur hafi staðið (Forseti hringir.) svo illa.

Frú forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa sagt þú en ég ætlaði að segja hv. þingmaður. Mér varð á í messunni. Hv. þingmaður segir að sjávarútvegurinn hafi staðið svo illa 1984. Það getur vel verið að sjávarútvegurinn hafi staðið illa 1984. En síðustu 100 ár hefur sjávarútvegurinn byggt upp Ísland. Það er staðreynd. Þess vegna er sorglegt að hlusta á svona rök. Sjávarútvegurinn er á hausnum í dag — í alvörunni — og hefur tekið þjóðina með. (VS: Á hausnum?)