136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

stjórn fiskveiða.

114. mál
[17:24]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Menn geta verið í hugarleikfimi en ég gat nú ekki áttað mig á því að með þeirri hugarleikfimi sem ég hafði, að sögn hæstv. sjávarútvegsráðherra, í frammi áðan — sem var nú ekki hugarleikfimi heldur einfaldlega almenn, einföld rök — hefði ég lent á hausnum. (Gripið fram í.) Ég gat ekki heyrt annað en að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði ekki annað fram að leggja í málinu en að segja ef og ef, ef hinn hv. þingmaður hefði hlustað, ef hann hefði nú lesið og ef þetta hefði gerst og ef þetta hefði verið.

Sá þingmaður sem hér stendur hefur lesið greinargerðina með frumvarpinu. Hann áttar sig nákvæmlega á því hvað þar er lagt upp með og hlustaði meðal annars á framsöguræðu hæstv. sjávarútvegsráðherra í málinu. Það leiðir hins vegar til þeirra hugleiðinga sem ég var með hér og þeirra sjónarmiða sem komu fram í máli mínu hér áðan.

Ég hef sett fram rök og sjónarmið sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur ekki getað mótmælt í andsvar, ekki fundið einn einasta höggstað á. Ég verð því að telja, miðað við það sem hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði fram að leggja, séu þær ályktanir sem ég dró og þau sjónarmið sem ég hef haft uppi einfaldlega hárrétt. Verið er fara á svig við sjónarmið um vísindalega verndun fiskstofnanna og uppbyggingu þeirra. Verið er að fara að geðþótta einhverra og þjóna hagsmunum sem hafa ekkert með það að gera að koma á stöðugri atvinnu og uppbyggingu fiskstofnanna.