136. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2008.

umgengni um nytjastofna sjávar.

120. mál
[18:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér skiptir máli að horfa á sjávarútveginn í heild. Nútímasjávarútvegur er matvælaiðnaður sem byggir á óbrotinni keðju frá veiðum, í gegnum vinnslu og markaðssetningu og til endanlegs kaupanda, þannig að verðmæti stórs hluta markaðarins er fólgið í því að geta tryggt afhendingu á umtalsverðu magni með reglubundnum hætti. Það er sú trygging, sem gerir að verkum að ekki er, tel ég, heppilegt að setja allan fisk á markað. Gott er að hafa hluta aflans á markaði og getur verð þar verið til hliðsjónar og sett ákveðna pressu á verð sem myndast utan fiskmarkaðanna, í beinum viðskiptum eða viðskiptum útgerðarmanna sem selja eigin fiskvinnslu.

Ég tel óskynsamlegt að rjúfa keðjuna sem ég lýsti áðan en um leið eru líka mikil verðmæti fólgin í því að hér starfi fiskmarkaðir og að töluverður hluti þess fisks sem landað er á Íslandi fari í gegnum þá. Mikilvægt er að efla það og ég tel að það höfum við gert með frumvarpinu. Með þeirri leið, sem ég veit að hv. þingmenn Frjálslynda flokksins hafa ítrekað talað fyrir, að allur fiskur sé settur á markað væri skaða valdið í sjávarútvegi, fiskvinnslu og útgerð. Það væri ekki til happa eða bóta fyrir íslenskan sjávarútveg og mundi draga úr möguleikum til að fá sem hæst verð fyrir auðlindina á erlendum mörkuðum vegna þess að þá væri mikilvæga keðjan, sem getur verið grundvallaratriði fyrir öruggum viðskiptum í matvælaiðnaði, rofin, þ.e. afhendingaröryggið sem getur verið lykilatriðið þegar kemur að miklum og langvarandi viðskiptum.