136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég legg áherslu á stöðu sparisjóðanna, að þeir verði varðir og þá fyrst og fremst þeir sem farið hafa í einu og öllu eftir hugsjónum og starfsgrundvelli sparisjóðanna, hafa ekki farið út í brask eða út fyrir starfssvið sitt. Ég nefni Sparisjóð Suður-Þingeyinga sem stendur vel. Vandinn er ekki stærðin. Það eru einmitt þessir smáu sparisjóðir sem standa sig betur ef þeir hafa haldið sig innan sinna marka. Ég tel að það eigi að bjarga sem allra flestum sparisjóðum en það á jafnframt að gera þá kröfu að þeir breyti sér hið félagslega form sem er grunnur sparisjóðanna og réttlætir tilveru þeirra. Samhliða því að hið opinbera kæmi að því að rétta hag þeirra sparisjóða sem ekki munu geta staðið hríðina af sér hjálparlaust ætti að benda þeim á að fara þessa leið. Það á að lögvernda heiti sparisjóðanna við þann starfsgrundvöll og hugsanagrunn sem þeir eru byggðir á en ekki að fara bakdyramegin. Ef menn vilja reka hlutafélagsbanka samkvæmt þeim reglum stofna þeir bara hlutafélagsbanka en kalla hann þá ekki sparisjóð.

Frú forseti. Ég ítreka að sparisjóðsímyndin nýtur virðingar og trausts. Það á að byggja það traust upp og standa vörð um það. Það er þá hlutverk stjórnvalda að gera það en til framtíðar á að byggja á hugsjónagrunni sparisjóðanna eins og þeir voru og hefur gefist best að vera.