136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ármanni Kr. Ólafssyni fyrir greinargóð svör efnislega um málið. Sömuleiðis vil ég þakka hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni fyrir hans svör, mér fundust þau reyndar rýrari í roðinu en ég átti von á, en fullvissa hann jafnframt um að ég tel mig tala fyrir munn ýmissa stjórnarandstöðuþingmanna sem eru tilbúnir til þess að styðja góð mál frá ríkisstjórninni, af því að mér heyrðist hann hafa áhyggjur af því að við mundum ekki gera það. (Gripið fram í.) Ég brýni hann jafnframt til að tala máli þeirra þúsunda sem þetta mál varðar og segi að lokum, að nú skiptir hver dagur miklu máli og ég tel að þingið eigi að hafa það hlutverk að liðka til fyrir svona málum en ekki tefja fyrir þeim.