136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þingið á að liðka til fyrir góðum málum og afgreiða góð mál og það skiptir miklu máli að það sé gert. Í þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir núna skiptir miklu máli að forgangsraða. Hér er um að ræða verulegar niðurgreiðslur svo nemur milljörðum króna úr ríkissjóði ef þetta verður að veruleika og á sama hátt mun þetta hafa í för með sér hækkun á verði bíla því að það mun náttúrlega fækka bílum á götunum sem hefur tilheyrandi afleiðingar fyrir bílamarkaðinn, það segir sig sjálft.

Hins vegar, eins og einnig hefur verið bent á, þá er það jákvæða við þetta að hingað gæti komið inn gjaldeyrir, þótt ég sé ekki endilega að hvetja til þess að fyrir gjaldeyrinn verði svo keyptir aðrir nýir bílar til þess að flytja inn í landið, það er kannski ekki nákvæmlega það sem okkur vantar í augnablikinu.

Ég vil segja við hv. þingmann að þetta mál er í góðum farvegi, hefur verið í vinnslu hjá stjórnarflokkunum og verður það áfram.