136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

kæra bankanna á hendur Íbúðalánasjóði.

109. mál
[14:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vona að fyrri ræðumaður hafi ekki tekið neitt af mínum en ég skal reyna að virða ræðutímann. Ég vildi koma því á framfæri í þessari umræðu að maður spyr sjálfan sig nú, eins og eðlilegt er: Hvar værum við ef við hefðum á sínum tíma lagt niður Íbúðalánasjóð eins og bankarnir vildu og voru mjög brattir í að sækja? Þá hefði staðan verið miklu verri en við horfum upp á í dag og nú er einmitt rætt um hvernig Íbúðalánasjóður geti lengt lánstíma o.s.frv. til þess að koma til móts við íbúa landsins.

Þannig að gott er að Íbúðalánasjóður er til staðar og við framsóknarmenn höfum viljað verja stöðu hans eins og hægt er. Því er mjög mikilvægt að stjórnvöld geri allt sem hægt er til að verja stöðu Íbúðalánasjóðs. Ég vil ítreka þetta af því að núna finnur maður að bankarnir hafa ekki sömu stöðu og áður, eins og blasir við, þannig að ríkið hefur þetta meira í hendi sér en áður. (Forseti hringir.)