136. löggjafarþing — 24. fundur,  12. nóv. 2008.

Íbúðalánasjóður.

108. mál
[14:32]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég hef bara alls ekki orðið vör við það á þeim tíma sem ég hef setið sem félags- og tryggingamálaráðherra, í eitt og hálft ár eða hvað það er, að verið hafi miklar deilur milli mín og Sjálfstæðisflokksins eða Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins um að hlutafélagavæða eigi Íbúðalánasjóð. (JBjarn: Ég hef það skjalfest meira að segja.) Það hafa bara alls engar deilur verið um það. Málið hefur ekki komist á það stig að verið hafi neinar deilur um það. Við höfum verið sammála um að við höfum orðið að svara því sem fram hefur komið hjá ESA um að þeir hafa talið að við hefðum verið að brjóta ríkisstyrkjareglurnar. Það höfum við verið sammála um að þurfi að skoða. Og við höfum verið sammála um að ef niðurstaðan væri sú að við hefðum brotið þær reglur þyrfti að aðskilja almenna starfsemi og félagslega starfsemi Íbúðalánasjóðs. En ég kannast ekki við það sem fram kom hjá einum hv. þingmanni áðan að meiningin með því hefði verið að Íbúðalánasjóður ætti bara að sinna félagslegum úrræðum. Langt í frá. Niðurstaðan var sú að Íbúðalánasjóður ætti að starfa áfram og sinna almennum og félagslegum lánveitingum. Það hefur margkomið fram hér í ræðustól. Annað sem sagt er í því efni er hreinn útúrsnúningur.

Spurt er um hvort ég muni gera einhverjar kröfur í nýjum stjórnarsáttmála til þess að gerðar verði einhverjar breytingar þar á. Ég sé nú margt brýnna í svona samræmdri aðgerðaráætlun sem ég vona að stjórnarflokkarnir komi sér saman um en að fara að gera kröfu um það. Við vitum það allir stjórnmálaflokkar að það þarf að endurskipuleggja fjármálamarkaðinn hér. Það þarf algjörlega að endurskipuleggja húsnæðiskerfið miðað við breyttar aðstæður og við skulum skoða hvernig sú leið er.

Ég frábið mér að ég sé í hópi einhverra sem vilja markaðsvæða Íbúðalánasjóð. Ég vil fyllilega standa vörð um hann eins og ég held að flestir þingmenn vilji gera. Það hefur aldrei sýnt sig eins vel og nú að það er nauðsynlegt að hafa (Forseti hringir.) starfræktan Íbúðalánasjóð eins og verið hefur. (JBjarn: Þá köllum við kæruna til baka formlega.)