136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

heræfingar Breta í íslenskri lofthelgi.

[11:00]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þingmaður getur komið hingað og rifið allan þann kjaft sem hann vill. Það er einfaldlega þannig að mín afstaða kom fram. Afstaða þáverandi starfandi utanríkisráðherra er sú hin sama og afstaða byggðaráðherra, iðnaðarráðherra, orkuráðherra, ferðamálaráðherra og einstaklingsins Össurar Skarphéðinssonar, (Gripið fram í.) ekki er hægt að greina þar á milli og það er alveg ljóst að afstaða mín kom fram meðan ég var starfandi utanríkisráðherra.

Ég hef gert það sem mér ber að gera í því. Það er að láta mína afstöðu koma fram. Ég stend andspænis stjórnarskránni í því efni. Ég þarf að fara eftir sannfæringu minni og hún er svona. Ég tel hins vegar að það muni ekki þurfa liðveislu. Þó að ég þakki liðveislutilboð hv. þingmanns tel ég að ég þurfi ekki á henni að halda til þess að koma þessu máli til hafnar.

En það er mín afstaða ef það er þannig að við eigum í svona harkalegri deilu við Breta eins og staðan hefur verið þá finnst mér það bara fráleitt. Ef við á annan borð náum sátt við Breta (Forseti hringir.) kemur upp önnur og ný staða. Það hef ég líka sagt áður.