136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[11:25]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þá tilhliðrunarsemi að doka við svo að ég kæmist til þingfundar en ég var staddur á öðrum fundi skammt frá. Erindið er að gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég setti við samþykki mitt á nefndarálitinu og rekja í hverju sá fyrirvari er fólginn.

Áður en ég vík að því vil ég í fyrsta lagi geta þess að það var samhjóða niðurstaða nefndarinnar að rétt væri að stefna að því að hraða afgreiðslu málsins og sú varð raunin. Málið hefur ekki verið nema fáa daga í meðförum þingnefndarinnar frá því að mælt var fyrir því á þingfundi í síðustu viku. Því er ekki að neita að þegar mjög hratt er unnið að máli sem er ekki einfalt þurfa menn mjög að vanda sig til að það verði þannig úr garði gert að menn séu nokkuð vissir um að það sé til bóta og það nái þeim tilgangi sem stefnt er að. Hraður framgangur máls er ávísun á að menn geti gert mistök. Nú ætla ég ekki að halda því fram að svo hafi verið að þessu sinni og ég trúi því að tekist hafi að fara þannig yfir málið á þessum fáu dögum að vel sé um hnúta búið og ekki komi fram síðar nein vandamál sem menn sáu ekki fyrir en hefðu átt að sjá fyrir í þinglegri meðferð málsins.

Ég vil láta þetta koma fram vegna þess að fyrir stuttu var sett fram mjög hörð gagnrýni á þingfundi á þingið sjálft af þingmönnum úr stjórnarliðinu sem átöldu framgang þingmála, álösuðu ótilgreindum aðilum fyrir að standa þannig að málum að þingið væri veikt og væri eins og verkfæri í höndum ríkisstjórnar á hverjum tíma. Þau orð voru meira að segja látin falla að þingmenn væru eins og afgreiðsludömur við búðarkassa að taka við vörunum frá ríkisstjórninni, setja þær undir strikamerkið og afgreiða þær samstundis til viðskiptavinarins aftur.

Sú gagnrýni sem þar var sett fram af nokkrum hv. þingmönnum gæti vissulega átt við þau vinnubrögð sem heilbrigðis- og trygginganefnd viðhafði í þessu máli. Ég hefði kosið, ef þess væri nokkur kostur, að þeir þingmenn sem lengst gengu í þessu kæmu upp í umræðunni og gæfu þingheimi álit sitt á þessum vinnubrögðum og segðu okkur frá því hvort þeir teldu að í þessu tilviki ættu ummæli þeirra um þjónustulund þingsins við ríkisstjórnina ekki við. Þar gengu fremst fram hv. þingmenn Guðfinna Bjarnadóttir og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Ekki væri úr vegi, ef þeir þingmenn eru staddir hér í þinghúsinu og eiga þess kost að taka þátt í þingfundi, að þeir kæmu hér og gerðu þingheimi grein fyrir afstöðu sinni. Mér þætti verra að heyra það síðar, kannski frá þessum þingmönnum, að starfshættir félags- og tryggingamálanefndar í þessu máli væru með þeim hætti að ástæða væri til að veita nefndinni ofanígjöf af svipuðum toga og þingmennirnir veittu þinginu fyrir nokkrum dögum. Ég hef að vísu ekki séð annan þingmanninn í þingsölum síðan þessi ræða hans var flutt hér og sá ágæti þingmaður hefur ekki flutt eitt einasta þingmál í þingsalnum. Hann hefur ekki notað þennan vettvang til að koma á framfæri þeim málum sem hann telur að eigi brýnt erindi við þing og þjóð eða notað þau tækifæri sem gefast til að beita sér í málefnalegri umræðu.

Ég vildi láta þetta koma fram, virðulegi forseti, þó að ég sé ekki að öllu leyti ósammála gagnrýni um veika stöðu þingsins — ég hef flutt þingmál til að bæta úr því, á þessu þingi er ég með þingmál sem ég hef mælt fyrir og eru ætluð til að bæta stöðu þingsins — fannst mér samt að gagnrýni hv. þingmanna gengi allt of langt og væri ómarkviss, ósanngjörn og hitti raunverulega engan fyrir annan en þingið sjálft. Mér finnst að menn verði að beina gagnrýni sinni í málefnalegan farveg og kannski síðast en ekki síst að nota aðstöðu sína og krafta til að bæta úr þeim ágöllum sem fyrir eru. Ég get tekið undir að ég tel ágalla vera í fyrirkomulaginu en ég hef ekki fengið stuðning við þær tillögur sem ég hef flutt frá þessum ágætu þingmönnum, tillögur sem eru ætlaðar til að bæta úr þeim annmörkum sem þingmennirnir bentu á að væru á stöðu þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. En alla vega, ég tel mikilvægt að það liggi fyrir að þingheimur sé sáttur við þessa hröðu málsmeðferð stjórnarfrumvarpsins í heilbrigðis- og tryggingamálanefnd.

Ég kalla eftir því, og sérstaklega frá þingmönnum stjórnarliðsins, að þeir gefi sig fram við þessa umræðu og komi athugasemdum sínum á framfæri ef þeir hafa þær við málsmeðferð félags- og tryggingamálanefndar í þessu máli. Hún er óvenjuleg, málið fær mjög hraða meðferð, umsagnaraðilar fá mjög skamman tíma til að íhuga málið og gefa sína umsögn og þessi hraða meðferð ýtir undir möguleikana á að mönnum yfirsjáist eitthvað í meðferðinni. Menn eiga ekki að beita svona hraðmeðferð í málum nema ástæður séu brýnar og varð samkomulag um það í nefndinni að svo væri að þessu sinni. Ég mundi því gjarnan vilja fá það fram hvort hin almenna gagnrýni á þingið og störfin á þinginu, sem kom fram í síðustu viku, eigi við um þetta mál. Komi hún ekki fram við þessa umræðu er ekki hægt að líta öðruvísi en svo á að engar athugasemdir séu við þetta mál eða málsmeðferðina. En mér þykir miður að þeir sem lögðu sig fram um að koma gagnrýni sinni mjög hvasst á framfæri skuli ekki sjást í þingsölum. Mér finnst það mjög miður en vonast eftir góðu samstarfi um tillögur til úrbóta á stöðu þingsins sem liggja fyrir í þinginu og jafnvel við að flytja frekari tillögur. Þetta vildi ég að kæmi fram, virðulegi forseti, þannig að allur vafi væri tekinn af í þeim efnum að málsmeðferðin í þessu máli sæti ekki gagnrýni, hvorki nú né síðar.

Ég vil í öðru lagi benda á að hugtök í þessu máli eru fleiri en eitt og ekki vel skilgreind. Þess vegna gæti verið tilefni til misskilnings um gildissvið frumvarpsins. Frumvarpið heitir: Frumvarp til laga um breytingu á lögum … vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Fram kemur í 3. mgr. 1. gr. frumvarpsins að ákvæði greinarinnar eigi við að hinn tryggði hafi misst starf sitt að hluta vegna samdráttar í starfsemi vinnuveitanda sem hann starfar hjá vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Þegar menn lesa lagatextann þurfa þeir að meta það hvort breytingin á starfshlutfalli launþegans hafi orðið til vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði eða aðstæðna sem falla utan við það. Það er ekki skilgreint, hvorki í lagatextanum, greinargerð né öðru sem maður sér, hvað raunverulega felst í þessu. Við vitum auðvitað að málið er tengt fjármálamarkaðnum og falli viðskiptabankanna en samþykkt hafa verið lög um það mál sem heita: Lög um sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Þar er talað um fjármálamarkað en ekki vinnumarkað og ekki er einungis talað um sérstakar aðstæður heldur sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður þannig að það er annað hugtak.

Tilefni er til að ræða um gildissvið málsins þegar hugtökin sem það grundvallast á eru í fyrsta lagi lítt eða ekkert skilgreind og þeim er lýst með mismunandi orðalagi í mismunandi lögum. Í nefndarálitinu stendur að frumvarpið sé lagt fram í ljósi breyttra aðstæðna á vinnumarkaði og það er þriðja hugtakið. Það þarf því að liggja skýrt fyrir um hvað þetta gildir og ég veit ekki betur, og ég hygg að það hafi komið fram í máli formanns nefndarinnar, en skilningur nefndarinnar á þessu sé á þann veg að þetta eigi við í öllum tilvikum sem launþegi verður fyrir því eða þarf að samþykkja lækkun á starfshlutfalli, eigi við um öll þessi tilvik þann tíma sem lögin gilda þannig að ekki þurfi að gá að því hvort hann starfi á fjármálamarkaði eða annars staðar og ekki þurfi að gá að því hvort tilefni til lækkunar á starfshlutfallinu sé vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði, vegna sérstakra og óvenjulegra aðstæðna eða vegna fjármálamarkaðarins eða vegna breyttra aðstæðna á vinnumarkaðnum. Það þarf ekkert að gá að því og ég tel að skilningurinn sé sá að þetta eigi alltaf við þegar það gerist að starfshlutfallið lækkar. Ég vildi að þetta kæmi fram, virðulegi forseti, og tel að þetta sé sameiginlegur skilningur allra nefndarmanna og að skilja beri frumvarpið með þessum hætti.

Að lokum er það fyrirvarinn sjálfur. Hann er við þann kafla í nefndarálitinu sem fjallar um stöðu þeirra sem missa atvinnu og huga að námi. Ég er ekki að öllu leyti sammála því sem stendur í nefndarálitinu og skrifa því undir það með fyrirvara. Fyrirvarinn lýtur ekki að efnisatriðum frumvarpsins þannig að ég mun styðja þau og breytingartillögur sem nefndin flytur. En ég hefði gjarnan viljað að, í frumvarpinu eða þá síðar, lögunum um atvinnuleysistryggingar yrði breytt á þann veg að sá sem missir atvinnu sína að fullu eða að hluta til geti farið í nám og haldið atvinnuleysisbótum. Þessu sjónarmiði var hreyft við 1. umr. málsins af hv. þm. Atla Gíslasyni og var rætt í nefndinni þó að niðurstaðan yrði ekki sú að flytja um það breytingartillögu sem næði því fram að einhverju leyti. Ég hef áður heyrt þetta sjónarmið sett fram á öðrum stað af fólki sem hefur velt þessu fyrir sér og þekkir vel til í þessum efnum, það er ekkert nýtt af minni hálfu að setja þetta fram. Ég aðhyllist þau sjónarmið að við eigum að breyta atvinnuleysistryggingalöggjöfinni á þann veg að atvinnulaus maður geti stundað nám í eitt til tvö ár og haldið atvinnuleysisbótum á meðan. Ég held að það þurfi að afmarka um hvaða nám gæti verið að ræða. Ég er ekki alveg tilbúinn að stíga það skref strax að opna þennan möguleika fyrir t.d. allt háskólanám. Ég er fyrst og fremst að hugsa um fólk sem ætlar sér að sækja nám sem er á sviði iðnmenntunar, starfsmenntunar eða á einhverju því stigi að námstími sé eitt til tvö ár og menn geti þjálfað sig og menntað sig til starfa í nýju starfi á þeim tíma og hafi þannig aukið hæfni sína á vinnumarkaði. Ég held að taka þurfi háskólamenntunina svolítið sértökum. Þó er hægt að sjá fyrir sér aðstæður sem geta réttlætt það að mínu mati að atvinnulaus maður sem ætlar sér að stunda háskólanám eða frekara háskólanám gæti átt rétt á atvinnuleysisbótum. Almennt held ég að við ættum þó að halda háskólanámi utan við þessa breytingu sem ég er að tala um að skoða, hún ætti fyrst og fremst að miða að öðru námi á öðru stigi en háskólastigi.

Ég hef ekki á þessu stigi máls hugsað mér að flytja breytingartillögur en ég er að skoða þessi mál og mun hugsanlega flytja frumvarp um þetta í vetur. Ég veit að eitthvað er verið að skoða þessi mál á vettvangi ríkisstjórnarinnar hjá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra og kannski koma fljótlega tillögur þaðan um þetta efni og það væri af hinu góða að mínu viti. En ég tel algerlega nauðsynlegt að opna þennan möguleika af þeirri einföldu ástæðu að þeir sem eru á vinnumarkaði — hafa verið þar um stund, eru búnir að koma sér upp fjölskyldu, kaupa sér húsnæði og eru komnir með skuldbindingar — hafa skert verulega möguleika sína á að fara í umtalsvert nám og fjármagna það með námslánum. Námslán eru ekki bara lán heldur líka skuld sem þarf að greiða. Mér finnst allt of algengt í opinberri umræðu um þessar mundir að menn líti svo á að menn þurfi ekki að borga skuldir sínar en skuldir eru almennt teknar með því hugarfari að þær séu endurgreiddar og sá sem veitir lánið ætlast til þess að sá sem tekur borgi lánið. Við verðum auðvitað að hafa þá meginreglu að lán sé skuld sem á að endurgreiða. Þeir sem eru komnir með skuldbindingar af þessu tagi eru miklu síður í stakk búnir til að auka þær umtalsvert með námslánum. Það er aðeins í örfáum tilvikum, hygg ég að megi segja, sem hið nýja nám gefi svo háar tekjur að það geti staðið undir skuldsetningunni og endurgreitt hana á þægilegum tíma fyrir lántakandanum án þess að skerða lífsgæði hans að öðru leyti. En almennt held ég að menn séu afar illa í stakk búnir til að takast á við nám af þessum toga og hafa engar eða litlar tekjur í svo langan tíma. Ég held því að opna verði þennan möguleika. Það kann líka að vera skynsamlegt að hafa samhliða atvinnuleysisbótunum möguleika á námslánum sem yrði þá minni hluti af kostnaðinum. Ég tel nauðsynlegt að opna þennan möguleika og nota tækifærið sem verður næstu árin til að gefa fólki kost á að bæta hæfni sína á vinnumarkaði.