136. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2008.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

115. mál
[11:51]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umfjöllun sem hér hefur farið fram um lagafrumvarpið sem liggur fyrir og það nefndarálit sem ég gerði grein fyrir áðan.

Fram komu ábendingar um einstök atriði m.a. frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni þar sem hann vekur athygli á túlkun, sem ég gerði raunar ekki grein fyrir í skýringum með nefndarálitinu, og hvað sé átt við með orðalaginu „vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði“. Hvort þetta sé takmarkandi á einhvern hátt og hvort menn ætli að fara að skilgreina þetta á einhvern sérstakan hátt hjá Vinnumálastofnun. Hv. þingmaður túlkaði þetta sjálfur og benti á að þarna væri fyrst og fremst átt við almennt úrræði og verið væri að vísa til almenns ástands í samfélaginu nú. En jafnframt getur Vinnumálastofnun á hverjum tíma í sjálfu sér metið hvort viðkomandi er að sækja um á allt öðrum forsendum en vegna erfiðleika og getur þá hugsanlega gripið inn í. En úrræðið er klárlega almennt, verið er að búa til reglur fyrir aðila sem eru í þeirri stöðu að fyrirtæki býður þeim að minnka starfshlutfall sitt í stað þess að segja þeim upp og út á það gengur frumvarpið. Það sem við gerðum svo var að víkka þetta út til sjálfstæðra atvinnurekenda og bættum þeim inn til að reyna að tryggja að sem allra flestir reyndu að halda í vinnu sína að hluta.

Ég vona að þetta sé nógu skýrt. Þó að þarna standi „vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði“ þá er þetta auðvitað almennt úrræði sem menn eiga kost á þar sem vinnuveitandi óskar eftir að gera samning við fólk um minnkað starfshlutfall.

Það sem verið var að gera, svo ég svari því að hluta til — ef ég átta mig rétt á athugasemdum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur — varðandi misræmið, varðandi stöðu fólks ef til gjaldþrots kemur hjá viðkomandi atvinnurekanda og við hvað eigi að miða í sambandi við réttinn hjá Ábyrgðasjóði launa. Hugmyndin var sú að menn tækju tímabilið áður en breytingar á stöðuhlutfalli urðu. Það var meginhugmyndin að taka alltaf tillit til síðustu þriggja mánaða á undan samningnum um lækkað starfshlutfall. Það getur enginn minnkað starfshlutfall starfsmanns án vilja hans. Þá gilda almennar reglur vinnumarkaðarins, að fólki sé sagt upp og það ráðið að nýju og þar gildi uppsagnarfrestur. Tekið er sérstaklega fram í nefndarálitinu að menn reikna ekki með að grípa þurfi til þess vegna þess að þarna sé um að ræða samkomulag á milli viðkomandi fyrirtækis, sem óskar eftir þessu við launþegann, og viðkomandi launþega. Þá er í sjálfu sér búið að skjalfesta gjörninginn og þá gildir þetta ákvæði, áður en til skerðingar á stöðuhlutfalli kom og áður en viðkomandi launþegi fór á atvinnuleysisbætur, og að það verði lagt til grundvallar varðandi Ábyrgðasjóðinn.

Ég vona að þetta sé nógu skýrt en það er rétt hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur að við ræddum þetta ekkert sérstaklega aftur og það verður að biðjast velvirðingar á því vegna þess að vinnuaðferðin sem notuð var — svo ég komi inn á athugasemdirnar sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði almennt um stöðu þingsins — við þetta frumvarp var sú að starfshópur stjórnarþingmanna vann ásamt fulltrúum úr félagsmálaráðuneytinu úr tillögum um það til hvaða úrræða væri hægt að grípa. Auðvitað koma þær hugmyndir héðan og þaðan, m.a. úr þinginu, úr erindum, í blaðagreinum eða tölvupóstum til viðkomandi aðila þar sem menn hafa verið að tína til öll úrræði sem möguleg eru. Þessi úrræði eru að skila sér í frumvörpum inn í þingið þannig að þingmenn hafa að sjálfsögðu mikinn aðgang að þeim.

Síðan gerðum við það sem hefur verið siður í félags- og tryggingamálanefnd, þ.e. ég hlustaði á umræðuna hér þar sem komu fram margar tillögur, m.a. frá hv. þm. Atla Gíslasyni, og við fórum skipulega í gegnum atriði sem komu fram í ábendingum og reyndum að afgreiða þær annaðhvort með því að taka þær inn í breytinguna og inn í nefndarálitið eða með því að rökstyðja af hverju ekki var tekið tillit til þeirra. Þetta gildir m.a. um gildistímann. Það komu ábendingar um að flýta honum. Það komu ábendingar um að minnka hlutfallið þar sem talað er um 50% hlutfall sem lágmark, hvort menn geti ekki farið neðar í hlutfalli þar sem atvinnuleysisbætur komi á móti. Þetta var rætt og skoðað með þeim sem sömdu frumvarpið því að fulltrúar atvinnulífsins og félagsmálaráðuneytisins komu að samningu textans. Það var mat manna að ekki væri ástæða til þess. Menn yrðu þá að endurskoða afstöðu sína í mars/apríl þegar frumvarpið kæmi til frekari skoðunar. Þannig eiga mál að mínu mati að vera, að fólk komi skoðunum sínum á framfæri með formlegum hætti og það hefur verið hlutverk mitt sem formanns félags- og tryggingamálanefndar að betrumbæta mál og þá gildir einu hvaðan tillögur koma. Þetta er okkar hlutverk.

Aftur á móti varðandi einstök atriði eins og t.d. um menntunina sem kom til tals í umræðunni líka, að ástæða væri til að huga að því með hvaða hætti fólk gæti stundað nám í atvinnuleysi, þá létum við vinna fyrir okkur minnisblað þar sem við skoðuðum stöðu námsmanna í þessu nýja umhverfi. Það var samdóma álit nefndarmanna að mjög hættulegt væri við núverandi aðstæður að fara að krossa á milli þess náms sem í dag er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og annars náms. Við þurfum að passa okkur á því að háskólanám sem nú er lánshæft og er afgreitt með ákveðnum hætti í gegnum lánasjóðinn — að við hleypum ekki þeim sem eru á atvinnuleysisbótum á starfslaun í gegnum Atvinnuleysistryggingasjóð. Þar var niðurstaða nefndarinnar. En það breytir ekki því að í nefndarálitinu kemur skýr skilgreining á því og ósk um að menn einmitt tryggi það að þeir sem eru í iðnnámi eða starfsnámi eða vilja sækja styttri námskeið á vegum símenntunarstöðva eða Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins eða framhaldsskóla geti átt kost á því að stunda slíkt nám á atvinnuleysisbótum. En aðalatriðið var að fara ekki að krossa þarna þannig, vegna þeirra sem hafa t.d. verið í framhaldsnámi og þurft að taka lán, að nú verði hleypt þar inn einhverjum einstaklingum sem sleppa við það.

Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur það form að endurgreiðslurnar eru tekjutengdar og það eru mjög góð kjör á lánum lánasjóðsins ef frá eru taldir fyrstu mánuðirnir, svo ég hafi það á hreinu, þar sem menn verða að fara á yfirdrátt í bönkunum en burt séð frá því eru lánakjörin hjá lánasjóðnum með þeim bestu. Við töldum ekki ástæðu til að fara að skipta okkur af því með þessu lagafrumvarpi en vekjum athygli á hinu og það er ekki félags- og tryggingamálaráðuneytið sem mun vinna þá vinnu heldur eru það auðvitað, eins og fram kom hér, þingmenn sem eiga að koma með tillögur en menntamálaráðuneytið og Lánasjóður íslenskra námsmanna þurfa að breyta reglunum.

Við getum strax nefnt þau atriði sem hafa komið fram í umræðunni og hafa komið fram áður annars staðar að sú aðferð að láta námsmenn fara á yfirdrátt í bönkunum þar til þeir hafa sýnt námsárangur á fyrstu önn og fá þá fyrst lán er auðvitað mjög úr takti við núverandi aðstæður. Það væri miklu eðlilegra að taka upp samtímagreiðslur og reyna að tryggja að fólk fengi betri kjör og væri ekki á yfirdrætti, sem er glannalega hár í augnablikinu, í þessu námi. Við töldum ekki ástæðu til að reyna að ná utan um allt með þessu frumvarpi sem heyrir undir félags- og tryggingamálanefnd heldur vísum til þess að þetta verði skoðað annars staðar og þetta mál verði ekki tafið með því að reyna að víkka það út varðandi þessi atriði. Það má líka segja að eitt af því sem þarf að laga er tekjutengingin — margir sem hafa verið jafnvel á ágætislaunum lenda nú í atvinnuleysi og vilja fara í nám — og að lánasjóðurinn bjóði upp á miklu mildari tekjutengingu þannig að skerðingar á láninu verði ekki jafnmiklar og verið hefur. Það er búið að mæta því að hluta en mætti jafnvel gera þar betur. Ég vona að ég hafi svarað þessum athugasemdum um námið og þeim fyrirvara sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson gerði varðandi það mál.

Þetta er eitt af þeim málum sem eru til að milda áhrifin af bankahruninu og fyrirsjáanlegar afleiðingar af því. Ég held að það sé mjög mikilvægt að vekja athygli á þessu, hvetja atvinnurekendur til að beita þessum aðferðum, að halda fólki í vinnusambandi, halda fólki að störfum, fá það í vinnu reglulega í stað þess að loka fyrirtækjunum alveg, bæði til að tryggja þann mannauð sem er þar og undirbúa það líka að auðveldara sé að endurreisa þau ef úr rætist. Ég treysti á að fjölmiðlar lyfti þessu svolítið og komi þessu vel á framfæri og dragi þetta fram sem jákvætt atriði, eins og öll nefndin var sammála um, til að kynna þetta þannig að það komi þá einhver jákvæð skilaboð inn í umræðuna um að verið sé að gera hluti sem gætu mildað fyrir fólk það ástand sem orðið er og fram undan er.

Ég veit ekki hvort ég hef svarað hv. þm. Álfheiði Ingadóttur um þetta, við höfðum ekki reiknað með því að þetta færi til nefndar en hver og einn þingmaður á rétt á að óska eftir því að nefndin fjalli sérstaklega um þessi mál. Það kann að vera að orðanotkun sé óskýr þarna að einhverju leyti en fyrir mér var þetta nokkuð skýrt og ég held að það hafi ekki velkst fyrir neinum að við erum að tala um að fólk sem fer á atvinnuleysisbætur að hluta á móti starfi eigi rétt á að Ábyrgðasjóður taki mið af ástandinu áður en skerðingin átti sér stað. Ég held að það sé alveg klár skilningur allra sem að málinu kom. Ef það er ekki nægjanlegt að hafa þau orð hér frá formanni nefndarinnar og vitna þannig í almennar skýringar við lagatextann þá óskar hv. þingmaður væntanlega eftir því að málið fari til nefndar.