136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[14:30]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá kröfu með hv. þm. Atla Gíslasyni að 3. dagskrárliðnum, Fjármálafyrirtæki, verði skotið á frest. Málið hefur ekki fengið þá umfjöllun í meðferð þingsins sem við teljum æskilega. Við teldum heppilegast að því yrði frestað annaðhvort fram yfir helgi, til mánudagsins, eða efnt til þingfundar á morgun þannig að hv. þm. Atla Gíslasyni gefist tóm til að vinna álit sitt.

Um þau umdeildu mál sem hér eru uppi hefur verið tiltölulega mikil ró, skulum við segja, mikil sátt í þeim skilningi að menn hafa ekki viljað rugga bátnum. Ég fæ ekki annað séð en nú sé stjórnarmeirihlutinn og ríkisstjórnin að byrja að gera einmitt þetta og ég vara við því.