136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

3. umr. um fjármálafyrirtæki.

[17:48]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að mótmæla orðum hv. þingmanns um að málið sem verður til umræðu á eftir hafi ekki fengið lýðræðislega umræðu eða umfjöllun. Viðskiptanefnd fékk málið, frumvarpið, á föstudaginn og hefur fundað daglega um það og kallað eftir þeim gestum sem tök voru á. Ég geri mér grein fyrir að það er skammur tími, en ég held að hv. þingmenn Vinstri grænna þurfi að átta sig á að þetta er sérstakt mál við sérstakar aðstæður. Hér liggur beinlínis á að setja þessa löggjöf sem við erum að mælast til að verði sett sem allra fyrst.

Fulltrúi Fjármálaeftirlitsins sagði á fundi viðskiptanefndar í morgun að óbreytt ástand væri tifandi tímasprengja. Frumvarpið sem við tölum nú fyrir og tölum vonandi fyrir á eftir snýst um að verja eignir bankanna og koma í veg fyrir að þær verði kyrrsettar, skaðaðar með einhverjum hætti úti í Evrópu, þannig að hér er á ferðinni frumvarp sem bjargar verðmætum. Það er með ólíkindum að á þingi sé einn stjórnmálaflokkur sem hefur það á stefnuskránni að koma í veg fyrir það. (Gripið fram í.) Ég skil ekki nálgun hv. þingmanna Vinstri grænna. (Gripið fram í.)

Ég vísa því til föðurhúsanna að hér hafi ekki verið sýnd lýðræðisleg vinnubrögð. Við höfum fundað daglega þessa viku um málið, tvisvar sinnum fengið fulltrúa frá réttarfarsnefnd, m.a. eftir ósk hv. þingmanns (Forseti hringir.) Vinstri grænna, og þannig hefur verið reynt að mæta þeim faglegu vinnubrögðum sem stóðu til boða í ljósi tímarammans sem fyrir hendi var, því hann var skammur.