136. löggjafarþing — 26. fundur,  13. nóv. 2008.

fjármálafyrirtæki.

119. mál
[17:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti frá meiri hluta viðskiptanefndar en málinu var vísað til nefndarinnar að lokinni 2. umr. Hún hefur fjallað um málið á ný og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur frá viðskiptaráðuneytinu, Andra Árnason hæstaréttarlögmann, Rúnar Guðmundsson frá Fjármálaeftirlitinu, Einar Jónsson frá skilanefnd Landsbanka Íslands, Jóhannes Rúnar Jóhannsson frá skilanefnd Kaupþings og Steinunni Guðbjartsdóttur frá skilanefnd Glitnis. Þá kom einnig á fund nefndarinnar Markús Sigurbjörnsson, formaður réttarfarsnefndar, og þar áður hafði Benedikt Bogason, starfsmaður réttarfarsnefndar, komið til nefndarinnar.

Eftir umræðu í nefndinni leggur meiri hluti hennar til frekari breytingar á frumvarpinu.

Í fyrsta lagi leggur meiri hlutinn til að við frumvarpið bætist tvö ný ákvæði sem verða 5. og 6. mgr. 98. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Í þeim felst annars vegar að óheimilt verði að höfða dómsmál gegn fjármálafyrirtæki meðan á greiðslustöðvun þess stendur, nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sé að ræða opinbert mál og refsiviðurlaga sé krafist. Í öðru lagi er lagt til ákvæði sem heimilar að meðferð dómsmáls sem höfðað hefur verið á hendur fjármálafyrirtæki frestist, meðan á greiðslustöðvun þess fjármálafyrirtækis stendur, nema mælt sé sérstaklega fyrir um heimild til þess í lögum eða um sé að ræða opinbert mál og refsiviðurlaga sé krafist. Markmið með breytingum þessum er að tryggja að fjármálafyrirtæki í greiðslustöðvun þurfi ekki að óttast málshöfðun íslenskra eða erlendra kröfuhafa meðan á greiðslustöðvuninni stendur og unnið er að því að tryggja verðmæti eigna fyrirtækisins. Orðalag ákvæðisins er sótt í 116. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira þar sem að hluta til áþekk regla gildir um þrotabú.

Í öðru lagi leggur meiri hlutinn til viðbót við 3. mgr. 103. gr. laganna á þann hátt að frestdagur við gjaldþrotaskipti geti einnig miðast við tímamark greiðslustöðvunar á grundvelli 3. mgr. 98. gr eða við heimild til nauðasamninga á grundvelli 27. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira. 103. gr. mun þannig fela í sér sérreglu um tímamark frestdags fjármálafyrirtækja. Gerir ákvæðið, með breytingum þessum, og breytingum á þskj. 140, ráð fyrir að frestdagur markist af hverju því tímamarki sem fram kemur í greininni og að ef ekkert þeirra tilvika eigi við skuli miða frestdag við þann dag sem héraðsdómara berst krafa Fjármálaeftirlits skv. 1. eða 2. mgr. 102. gr. laganna. Er með þessum viðbótum reynt að tryggja að frestir til riftunar og skuldajöfnuðar tapist síður, að frestdagur fjármálafyrirtækja verði afmarkaður skýrlega og að hann komi fram sem fyrst, en það er sérstaklega mikilvægt í tilfellum þar sem Fjármálaeftirlitið hefur tekið yfir stjórn á fjármálafyrirtæki.

Í þriðja lagi leggur meiri hlutinn til nýtt ákvæði til bráðabirgða sem felur í sér að í þeim fjármálafyrirtækjum sem Fjármálaeftirlitið hefur skipað skilanefnd á grundvelli 100. gr. a. skuli miða frestdag við gildistöku laga þessara. Er þessu ákvæði þannig ætlað að taka af tvímæli um að frestdagur í þessum tilfellum sé ekki afturvirkur.

Þá ræddi nefndin einnig á fundum sínum ábendingu frá skilanefnd Landsbanka Íslands um að réttaráhrif greiðslustöðvunar eins og þau eru skilgreind í 19. og 22. gr. laganna um gjaldþrotaskipti og fleira séu ekki nægilega skýr og ákveðin til þess að vekja erlendum kröfuhöfum traust um að fjármálafyrirtækin muni geta unnið að nýrri skipan fjármála og endurreisn eigna sinna í greiðslustöðvunarferlinu. Eftir umræður við viðskiptaráðuneyti og Fjármálaeftirlitið er það mat meiri hlutans að heimildir í 20. og 21. gr. laganna um gjaldþrotaskipti tryggi nægilega slík úrræði fjármálafyrirtækja undir greiðslustöðvun, þar á meðal ráðstafanir á eignum fyrirtækis ef slíkt er nauðsynlegt til þess að varna tjóni, þar á meðal fjárhagslegu tjóni.

Á fundi nefndarinnar kom auk þess fram sú athugasemd að betra kynni að vera að setja í lögin um fjármálafyrirtæki sérstakan kafla um greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Í ljósi þess að brýnir hagsmunir eru í húfi telur meiri hlutinn að óhjákvæmilegt sé að setja í lögin þau ákvæði sem í breytingartillögu þessari felast. Meiri hlutinn beinir því hins vegar til ráðuneytisins að hlutast til um gerð frumvarps sem feli í sér heildstæð ákvæði um greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja, er skapi fyllri og skýrari umgjörð um slíkt ástand til lengri tíma litið.

Á grundvelli framangreinds leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum þeim sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir þetta álit rita Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Birgir Ármannsson, Árni Páll Árnason, Birkir J. Jónsson, Jón Gunnarsson, Björk Guðjónsdóttir og Höskuldur Þórhallsson skrifar undir með fyrirvara en Guðjón A. Kristjánsson hv. þingmaður sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu, með fyrirvara.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi þessa þingfundar er um að ræða óvenjulegar aðstæður. Við stöndum frammi fyrir því að allir kerfisbankar Íslands hafa hrunið á mjög skömmum tíma og Ísland er að ganga í gegnum eina dýpstu banka- og gjaldeyriskreppu í áratugi.

Þingheimur sameinaðist um að samþykkja neyðarlög með stuðningi eða hjásetu allra stjórnmálaflokka, að mig minnir, á mjög skömmum tíma til að bregðast við því ástandi sem blasti við. Meginmarkmið neyðarlaganna var að tryggja að bankastarfsemi í landinu héldist áfram. Við afgreiddum þau lög úr viðskiptanefnd með þeim orðum í nefndaráliti að þau ættu að koma til endurskoðunar og að sjálfsögðu hvet ég til þess að sú endurskoðun hefjist fljótlega.

Hér er á ferðinni annað frumvarp um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki sem hefur líka mjög mikilvægt markmið. Það markmið er að bjarga verðmætum. Svo að ég taki af öll tvímæli þá erum við í meiri hluta viðskiptanefndar og í öllum stjórnmálaflokkum nema Vinstri grænum ekkert að leika okkur að því að afgreiða frumvarp á einni viku. Ég get tekið undir það að æskilegt er og betra að hafa meiri tíma til að fjalla um frumvörp og löggjöf. Ég er fyrsti maður til að viðurkenna það. Ég held að við séum öll sammála um það. En aðstæður geta krafist annarra vinnubragða. Neyðarlögin voru afgreidd á þessu þingi á sex klukkustundum. Það getur líka verið kostur lítils þings að geta brugðist mjög hratt við.

Við erum búin að taka um viku í þetta mál í viðskiptanefnd. Frá fyrsta degi var öllum nefndarmönnum ljóst að tíminn var atriði hér. Það var tímapressa á þessu máli. Við höfðum ekki allan þann tíma sem við vildum hafa. Það veit hv. þm. Atli Gíslason sem mun koma hér á eftir og eflaust fara mikinn í gagnrýni sinni á vinnubrögðin. (Gripið fram í.)

Allir þingmenn vissu að tíminn var atriði því að verðmæti voru í hættu. Mér finnst það ábyrgðarhluti að standa hér og kalla eftir frestun á málinu því að ég tel að við séum þá að fórna meiri hagsmunum fyrir minni. Jú, við gætum fengið fleiri gesti. Við gætum fengið skriflega umsögn frá réttarfarsnefnd. Við gætum fengið umsögn fleiri þingnefnda, t.d. allsherjarnefndar eins og hv. þm. Atli Gíslason hefur beðið um. Við getum tekið mánuð í þetta til að undirbúa okkur og tryggja að engir lekar séu á þessari löggjöf. En þá værum við að fórna meiri hagsmunum fyrir minni og það er það hagsmunamat sem allir stjórnmálaflokkar nema Vinstri grænir voru tilbúnir að fara í gegnum og taka ákvörðun um. (Gripið fram í.) Við tókum ákvörðun um að við ætlum að standa með þessari löggjöf sem er unnin hratt en hefur þann tilgang að bjarga verðmætum.

Hv. þingmenn Vinstri grænna sem voru í nefndinni, þeir skiptu um fulltrúa í miðri umfjöllun, vissu það mætavel (Gripið fram í.) — ég skal taka það til baka. Ég veit bara að fastur þingmaður í nefndinni, hv. þm. Jón Bjarnason, var ekki viðstaddur þegar málið var rætt í viðskiptanefnd. Burt séð frá því aukaatriði, það er ágætt að vinstri grænir hafi einhvern tíma rétt fyrir sér. Það kom fram í meðförum málsins að nú þegar eru menn farnir að kyrrsetja eignir íslensku bankanna. Nú þegar koma erlendir aðilar í veg fyrir að eðlilegt flæði fjármagns sé frá útlöndum til bankanna.

Þessi löggjöf, þetta frumvarp, gerir það kleift að nýta fyrirkomulag greiðslustöðvunar fyrir gömlu bankana. Ef bankarnir fara í greiðslustöðvun — sem þarf ekki að vera að allir þeirra geri, einhverjir munu gera það, hugsanlega tveir — eru þeir varðir. Þá eru gömlu bankarnir varðir fyrir slíkum tilburðum úti í hinum stóra heimi. Þeir eru varðir fyrir kyrrsetningunni sem er að skaða eignirnar, sem er að rýra verðmæti þeirra. Þess vegna er frumvarpið hingað komið. Þess vegna fær það tiltölulega skjóta meðferð hér á þingi.

Við höfum einnig komið í veg fyrir að bankarnir fari beint í gjaldþrotaslit heldur geti starfað með takmörkuðu starfsleyfi í greiðslustöðvun þannig að þeir hafi tíma til að endurskipuleggja sig og bjarga verðmætum. Þetta skiptir miklu máli. Ef íslenskur banki, gömlu bankarnir, fara í þessa greiðslustöðvun, í þetta greiðslustöðvunarfyrirkomulag, nær sú vernd yfir allt EES-svæðið. Það skiptir gríðarlega miklu máli.

Við erum einnig að gera aðrar breytingar í frumvarpinu, margar hverjar smávægilegar og praktískar. Við erum að lengja hér fresti til að mæta þessum óvenjulegu aðstæðum. Það er ekki gert á kostnað kröfuhafa eða eins eða neins. Við sjáum einfaldlega að núgildandi frestir henta ekki svona stóru búi. Einnig er um að ræða praktískar breytingar sem lúta að tilkynningu til kröfuhafa. Við höfum um 420 þús. kröfuhafa. Það krefst viðbragða af hálfu löggjafans að bregðast við þeirri stöðu og þess vegna erum við einnig að breyta þeim lögum.

Frumvarpið er öllum aðilum máls í hag. Það er kröfuhöfum í hag. Það er skattgreiðendum í hag. Það er ríkinu í hag vegna þess að markmið okkar og þessi löggjöf mun gera það kleift að hámarka virði þeirra eigna sem þó eru til. Það hlýtur að vera kappsmál sérhvers þingmanns, líka þingmanna Vinstri grænna, að við fáum sem mest fyrir þær eignir sem eftir eru í bönkunum. Við stöndum hugsanlega frammi fyrir miklum skuldbindingum vegna ýmissa atriða sem fóru úrskeiðis, m.a. Icesave-reikninganna, og því skiptir miklu máli að einhverjar eignir séu á móti til að mæta þeim skuldbindingum.

Kosturinn við greiðslustöðvunarfyrirkomulagið, sem við gerum hér bönkunum kleift að fara í, er í fyrsta lagi að fjármálafyrirtæki fara þá ekki í slit, fara ekki í gjaldþrotaskipti. Það skiptir miklu máli. Bankarnir geta lifað áfram og með því er ég ekki að segja að þeir ætli að hefja hér einhvern útibúsrekstur eða taka á móti innlánum heldur geti endurskipulagt sig með takmörkuðu starfsleyfi. Ef þeir missa starfsleyfið, samkvæmt núgildandi lögum, þurfa þeir að fara til gjaldþrotaskipta. Það er í þessari endurskipulagningu sem þeir hafa tækifæri, gömlu bankarnir, að hámarka eignirnar. Við gjaldþrotaskipti falla sömuleiðis lán og kröfur á gjalddaga.

Minnst var á það af þingmönnum hér við 2. umr. að frumvarpið væri ekki minni kröfuhöfum í hag. Ég vil mótmæla þeirri fullyrðingu. Ég fullyrði að verið sé að breyta lögunum á þann veg að þau gagnist kröfuhöfum betur. Verði frumvarpið að lögum geta gömlu bankarnir óskað greiðslustöðvunar. Í máli þeirra á fundum viðskiptanefndar hefur komið fram að þeir telja að með því að fara í greiðslustöðvun geti þeir hámarkað það verð sem mögulegt er að fá fyrir eignirnar og kröfuhafar eigi þá meiri möguleika á að fá greiðslur upp í kröfur sínar. Til að mögulegt sé að gömlu bankarnir geti óskað eftir greiðslustöðvun þarf að taka 6. tölulið 2. mgr. 12. gr. laga um gjaldþrotaskipti og fleira úr sambandi. Það gerum við með þessari lagasetningu, og einnig 4. tölulið — ég vil hins vegar draga það fram að 4. töluliður var í rauninni tekinn úr sambandi með neyðarlögunum.

Við erum að koma í veg fyrir að skilyrði núgildandi laga um greiðslustöðvun sé ekki fullkomlega uppfyllt og dómari hafni einfaldlega ósk um að tiltekinn banki fari í greiðslustöðvun. Við erum að gera það greiðari leið fyrir gömlu bankana að fara í það fyrirkomulag sem kallað er eftir, í það fyrirkomulag sem gerir bönkunum kleift að fá þann tíma sem þarf til að verja eignirnar.

Kröfuhafar sem hafa átt fundi með skilanefndum og Fjármálaeftirlitinu hafa lagt mikla áherslu á að farið verði með gömlu bankana í lögformlegt ferli sem allir þekkja eins og greiðslustöðvun eða nauðasamninga, þannig telji kröfuhafar rétt sinn betur tryggðan þar sem ferlið sé gagnsærra og farið eftir reglum sem allir þekkja. Ákvæði frumvarpsins eru því fyrst og fremst kröfuhöfum til góða en líka skattgreiðendum sem þurfa hugsanlega að mæta skuldbindingum þessara sömu banka. Þetta er að mínu mati „win-win“-staða fyrir þessa aðila máls og því er andstaða eins stjórnmálaflokks á þingi við það óskiljanleg.

Herra forseti. Ég veit að það er umdeilt að breyta löggjöf, allri löggjöf. Það er alltaf umdeilt að breyta löggjöf, sérstaklega kannski í því ástandi sem nú er. Það getur verið umdeilanlegt að breyta gjaldþrotaákvæðum með þeim hætti sem við gerum hér. Það var markmið okkar í nefndinni að hrófla sem minnst við þessu ferli, hrófla sem minnst við lögunum. En eins og ég sagði í upphafi máls míns kölluðu þeir hagsmunir sem í húfi eru einfaldlega á að við stigjum það skref sem talað er um í frumvarpinu. Það versta í stöðunni hefði verið að gera ekki neitt og það hefði líka verið vont að tefja málið.

Hæstv. forseti. Við gerum okkur grein fyrir því að með því að taka aðeins viku í meðferð málsins geti ýmislegt þurft að koma til endurskoðunar, við viðurkennum það. Í neyðarlögunum voru endurskoðunarákvæði og við setjum einnig ákvæði í nefndarálit meiri hlutans um að hlutast verði til um gerð frumvarps sem feli í sér heildstæða ákvörðun um greiðslustöðvun fjármálafyrirtækja. Það mun síðan skapa fyllri og skírari umgjörð um slíkt ástand til lengri tíma litið.

Við munum að sjálfsögðu skoða þessa löggjöf aftur. Við munum fara í heildstæða nálgun. Það þarf að mæta þessum álitaefnum með heildstæðum hætti, ég get tekið undir það. Nú er hins vegar tími til að bregðast við því að við stjórnum ekki þeim aðgerðum sem eiga sér stað úti í heimi. Það eru aðrir sem taka þar ákvarðanir og við stöndum frammi fyrir gífurlegum eignabruna ef við sitjum hér aðgerðalaus eða tökum enn fleiri daga í að taka ákvarðanir. Hversu mikið sem við mundum vilja það er sá tími ekki fyrir hendi. Ég tel að það sé hreinskilnislegt að viðurkenna það. Það er hagsmunamat okkar í meiri hlutanum að með þessum hætti náum við að verja eignir og mæta hagsmunum íslenskra skattgreiðenda best miðað við þær aðstæður sem nú eru.