136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

embættismenn og innherjareglur.

[15:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi fá að senda hlýjar kveðjur sessunauti mínum, hv. þm. Guðna Ágústssyni, en bréf frá honum var lesið fyrr á fundinum.

Ég kveð mér hljóðs vegna þess að sú skrýtna frétt barst nýverið að í aðdraganda bankahrunsins hefði ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu, Baldur Guðlaugsson, selt hlutabréf sem hann mun hafa átt í einum af viðskiptabönkunum, Landsbanka Íslands, og það eftir að hafa setið fund með breskum yfirvöldum í aðdraganda þessa. Slíkar fréttir hljóta að vekja okkur á Alþingi til umhugsunar. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort engar reglur gildi um slíkar eignir ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og hvort ekki þurfi að hafa áhyggjur af hagsmunaárekstrum þess sem er gæslumaður ríkissjóðs með þessum hætti og þess sem á hlutabréf í einstökum fyrirtækjum, hvað þá fjármálafyrirtækjum. Hvort ekki þurfi að vera þarna upplýsingaskylda ef ekki blátt bann við því að vera eignaraðili að fjármálafyrirtækjum.

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki sé rétt að ráðuneytisstjórinn upplýsi um það hvaða dag hann seldi og hvort hafinn hafi verið undirbúningur að setningu neyðarlaga í þinginu. Ég spyr líka hvort Bretar hafi verið upplýstir um að ráðuneytisstjórinn væri haghafi í málinu þegar hann fundaði með þeim og hvort það hafi síðan ekki verið óþægilegt í viðræðum okkar við Breta að í ljós hafi komið að ráðuneytisstjórinn í fjármálaráðuneytinu hefði selt eignarhlut sinn í bankanum meðan almenningur var enn að leggja sparifé sitt inn í hann.