136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

embættismenn og innherjareglur.

[15:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Þetta voru nokkrar spurningar, ég nam þær ekki allar. Ég kannast ekki við að nákvæmar reglur séu til um það hvernig eignarhaldi embættismanna á hlutum í fyrirtækjum á að vera háttað. En ljóst er að þeir sem taka ákvarðanir hvað varðar fyrirtæki sem þeir eiga hlut í, þeim ber að víkja eigi þeir hagsmuna að gæta. Ég hygg að ekki hafi verið um neitt slíkt að ræða hjá ráðuneytisstjóranum, að hann hafi ekki tekið neinar ákvarðanir um Landsbankann þar sem eign hans gæti haft áhrif á afstöðu hans í málinu.

Ráðuneytisstjórinn hefur gert grein fyrir kringumstæðum þeim sem voru þegar hann tók þessa ákvörðun og hann hefur einmitt lagt það til grundvallar að á þessum tímapunkti hefði hann ekki haft neinar aðrar upplýsingar um bankann en voru á almannavitorði og því ekki talið að neitt væri athugavert við að hann ráðstafaði bréfum sínum eins og hann teldi best. Ég hef enga ástæðu til að bera brigður á orð hans í þessu sambandi.

Hvað það varðar hvort það hafi valdið óþægindum í samningaviðræðum við Breta þá hef ég ekki heyrt á það minnst neins staðar. Ég hef ekki heyrt að það hafi valdið neinum vandkvæðum og á ekki von á því að svo hafi verið.

Ég held að þetta mál liggi nokkuð ljóst fyrir og hvað þar hefur verið lagt til grundvallar.