136. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2008.

embættismenn og innherjareglur.

[15:51]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin. Ég vil auk þess spyrja hann hvort honum hafi verið kunnugt um eignarhlut ráðuneytisstjórans og hvort hann hafi gert athugasemdir við það. Eðli málsins samkvæmt hefði ég haldið að ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu hefði alla jafna upplýsingar umfram marga aðra sem lytu að starfsemi fjármálafyrirtækja í landinu og viðskiptalífinu — margvíslega hluti sem verið er að vinna að í fjármálaráðuneytinu á hverjum tíma, þjóðhagsspá o.s.frv. að ekki sé talað um í sérstökum aðstæðum sem þessum. Það er óhjákvæmilegt að eftir fundinn með Alistair Darling á Englandi hafi ráðuneytisstjórinn haft upplýsingar sem aðrir á markaði hafi ekki haft. Ég tel verulega ámælisvert að ráðuneytisstjórinn hafi selt eignarhlut sinn eftir þann fund og fyrir bankahrunið og að það standi upp á okkur á Alþingi og hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að það afhjúpar að við höfum vanrækt þær skyldur okkur að setja reglur um slíkan eignarhlut og um það hvernig með skuli fara.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji ekki tilefni til að beita sér fyrir því að settar verði skýrar reglur um hverjir af þeim sem gegna æðstu trúnaðarstörfum á vegum ríkisins mega eiga í fjármálafyrirtækjum og með hvaða hætti.