136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[16:48]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. ráðherra hvað hún meinti með því að afgreiða þyrfti þetta mál hér á mjög skömmum tíma. Nú er upplýst að það eigi að gerast á þessum sólarhring. Á sama tíma segir hæstv. ráðherra að það atriði sem hér er sagt að verið sé að taka á, þ.e. verðbólguskotið, hækkun verðbóta og vaxta á húsnæðislánum, hafi verið skoðað ítarlega í nefnd á vegum ráðuneytisins. Er það svo að Alþingi eigi ekki að fá að skoða þessa hluti ítarlega? Eða telur ráðherrann að Alþingi geti skoðað þetta viðamikla mál ítarlega á þessum sólarhring sem nú er ansi langt kominn, hæstv. ráðherra? Ég óska eftir svari við því.

Ég tel í rauninni enga ástæðu til að vera með neina fljótaskrift á þessum málum. Það er alveg ljóst að önnur úrræði eru fyrir fólk hjá Íbúðalánasjóði, að flytja greiðslur aftur fyrir gjalddaga og þar á meðal bæði skuldbreytingalánin og greiðslujöfnunarlánin sem verið er að lengja hér úr 15 árum í 30. Stór hluti lána er þegar í þeim farvegi og ekkert sem kemur í veg fyrir að svo geti verið áfram og gagnast því fólki sem hér um ræðir.

Ég hjó líka eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að tekjur lánastofnana yrðu einhverjum milljörðum króna lægri og ég óska eftir því að það komi skýrt fram hvaða tala þar var nefnd.