136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:16]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að það er óvænt og að sumu leyti athyglisvert að niðurstaðan eftir athugun málsins skuli vera að grípa til þess bjargráðs að endurvekja gamla löggjöf frá tíð framsóknarráðherra í félagsmálaráðuneytinu, Alexanders Stefánssonar, sem ég veit að hæstv. ráðherra átti mikil samskipti við í þinginu á sínum tíma. Það undirstrikar kannski að þegar menn fara ofan í mál af þessum toga — því að löggjöfin var þá sett í framhaldi af misgengi launa og verðlags árið 1983 sem kom mjög hart við ýmsa einstaklinga í þjóðfélaginu á þeim tíma þegar verðbólga var mjög há, laun sátu eftir og greiðslubyrði lána hækkaði mjög mikið. Niðurstaðan á þeim tíma varð að ekki væri hægt að gefa eftir greiðslur eða skuldbindingar, hluta skuldbindinganna sem fólust í lánveitingunni, vegna þess að þegar menn gefa eftir peninga þarf einhver að borga. Niðurstaðan fyrir 25 árum varð að ekki væri hægt að leggja byrðarnar á einhvern annan hóp og þess vegna var gripið til þess ráðs að búa til löggjöf sem fleytti mönnum yfir tímabilið með greiðslujöfnun þar til hlutirnir breyttust því að auðvitað styttir alltaf öll él upp um síðir. Sú þróun sem var í gangi þá og nú, að fasteignir lækka í verði og eigið fé eigenda þeirra minnkar eða jafnvel hverfur á skömmum tíma, snýst við innan fárra ára. Þá hækka fasteignirnar í verði á nýjan leik og eigið fé myndast aftur eins og gengur.

Hversu sanngjarnt eða ósanngjarnt sem það nú er að menn þurfi að ganga í gegnum þetta tímabil og borga af sínum lánum glíma menn líka við þessa spurningu: Er sanngjarnara að einhver annar borgi? Niðurstaðan fyrir 25 árum var sú að ekki var talið ráðlegt, eða mönnum fannst ekki í það leggjandi, að taka háar fjárhæðir af ákveðnum hópi og færa þær yfir á annan hóp. Sama niðurstaða hefur orðið nú 25 árum seinna þar sem aðstæður eru sumpart svipaðar. Þó að aðdragandinn að þeim sé ólíkur má sjá sömu einkenni. Menn standa frammi fyrir því þegar á að mæta kröfunni um afnám verðtryggingar við þessar aðstæður, skerta verðtryggingu um tíma eða annað slíkt, að það getur út af fyrir sig verið sanngjarnara fyrir þá sem eru að borga en það lendir alltaf á einhverjum öðrum að borga reikningana. Hver á það að vera? Ef það er ríkissjóður þurfa skattgreiðendur að borga reikninginn. Ef það eru sparifjáreigendur er það mjög stór hópur og við skulum muna að eignir heimilanna í landinu eru líklega þrisvar sinnum meiri en skuldirnar. Skuldir heimilanna nema um 30% af eignum. Eignir heimilanna eru bæði innstæður, fasteignir, lífeyrissjóðsréttindi og annað sem er verðmætt í dag. Ef menn grípa til þess að færa vaxtaverðlagið niður er kostnaðurinn við það þegar upp er staðið meiri fyrir heimilin í landinu en ávinningurinn. Þá mundu atvinnufyrirtæki hagnast á þessari breytingu. Þá væri verið að færa fjármagn frá heimilunum til atvinnufyrirtækjanna vegna þess að atvinnufyrirtækin eru stærstu skuldararnir. Eðlilega, það er ekkert athugavert við það.

Svona er eignasamsetningin í þjóðfélaginu og ef við svörum kröfum um að færa skuldir af stórum hópi skuldara lenda byrðarnar á sama hópi, kannski ekki alltaf sömu einstaklingum en á sama hópi. Margir einstaklinganna sem skulda eru líka stórir eigendur í lífeyrissparnaði. Eru þeir eitthvað bættari með því að skuldum sé létt af þeim með því að strika út ákveðinn hluta skuldanna en um leið strikast út ákveðinn hluti af lífeyrisréttindunum? Allt þetta þarf að hafa í huga þegar menn vega og meta þessi mál. Mér sýnist á öllu að hæstv. félagsmálaráðherra hafi komist að þeirri niðurstöðu að þetta væri skásta færa leiðin miðað við þann tíma sem menn hafa gefið sér til að finna lausn.

Við skulum ekki útiloka að menn finni aðrar betri lausnir. Ég hef alltaf verið dálítið veikur fyrir ákveðinni efnahagsleið sem mikið var talað um fyrir nærri 20 árum, kannski hvað mest fyrrverandi hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson þegar hann var formaður Vinnuveitendasambands Íslands, en það er niðurfærsluleið. Mér hefur alltaf fundist það skynsamleg leið en hún byggist á því að allir taki höndum saman um samræmdar aðgerðir og samkomulag sé um áhrif á hvern og einn hóp. Niðurfærsluleiðin mundi færa niður skuldir, færa niður eignir, tekjur o.s.frv. en hún færir líka niður verðlag og kemur á miklum stöðugleika ef samkomulag næst. Þessu var þreifað á í aðdraganda þjóðarsáttarinnar um 1990 en um það náðist ekki samkomulag heldur var farin önnur leið sem er samt ekki mjög frábrugðin niðurfærsluleiðinni. Ég hef alltaf verið dálítið veikur fyrir henni og mér finnst að í þeim erfiðleikum sem við stöndum frammi fyrir núna ættu menn kannski að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið fyrir hartnær 20 árum og kanna hvort við getum ekki notað þá leið eða afbrigði af henni til þess að koma á nýrri skipan efnahagsmála hér á landi.

Ég vildi að þetta kæmi fram, virðulegi forseti, til þess að menn sæju viðhorf mín til stóru dráttanna í þessum efnum. Ég sé ekki frekar en hæstv. félagsmálaráðherra að það sé fær leið út úr stöðunni núna að taka verðtrygginguna úr sambandi að hluta eða öllu leyti skuldamegin. Það yrði þá að vera hinum megin og ég held að það yrði enn meiri ófriður um það. Þetta þýðir ekki endilega að ég sé á þeirri skoðun að verðtryggingin eigi að vera um aldur og ævi. Hún er afleiðing af óstöðugu umhverfi og við getum ekki ætlað okkur að búa áfram við óstöðugt umhverfi heldur hljótum að reyna að koma á aðstæðum til þess að geta afnumið verðtryggingu. Það hlýtur að vera markmiðið. Í byrjun þessarar aldar gafst tækifæri til þess að afnema verðtrygginguna en það var látið ónotað, kannski vegna þess að ekki var nægilegur þrýstingur af hálfu skuldara. Þá var stöðugleiki í verðlagi og menn fundu ekki svo mikið fyrir háum verðtryggðum skuldum vegna þess að verðtrygging dreifir skuldabyrði og er hagstæð skuldurum að því leyti. Kannski vantaði þrýsting til þess að nota tækifærið meðan það gafst en við skulum vona að þær aðstæður komi upp aftur. Þá eigum við auðvitað að stíga skrefið til fulls og niðurfærsluleiðin eða einhver viðlíka efnahagsleg aðgerð getur hjálpað okkur til að komast á þennan stað.

Ég held að það væri mikið óráð á þessari stundu að boða að hróflað yrði mikið við verðtryggingunni. Ég held að það mundi skapa miklu meiri usla en ávinning. Við skulum ekki gleyma því að eignamegin eru gríðarlegar fjárhæðir sem bundnar eru með beinum eða óbeinum hætti við verðtryggingu og ef menn færu að hreyfa mikið við því mundu menn fara með féð úr landi hver sem betur gæti. Þá held ég að þýddi lítið að taka bara tveggja milljarða lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Menn yrðu að taka miklu hærri fjárhæðir að láni hjá honum og öllum öðrum sem hönd á festi til þess að geta staðið undir því útstreymi sem mundi leiða af því að flótti kæmist í lið þeirra sem eiga þessar eignir. Ég held því að menn verði að vara sig á því að rugga þeim báti um þessar mundir.

Virðulegi forseti. Það er venja þegar rædd eru mál frá ríkisstjórninni að á dagskrá fundarins séu mál af sama toga frá þingmönnum en einhverra hluta vegna hefur misfarist að setja á dagskrá þessa þingfundar frumvarp sem ég flutti um sama efni. Því vil ég, með leyfi forseta, fá að víkja að því máli og benda hæstv. ráðherra og öðrum á að frumvörpin eru sumpart eins en sumpart er mitt frumvarp víðtækara og svarar því kannski betur þeim þörfum sem verið er að mæta.

Í frumvarpi ráðherra er gert ráð fyrir greiðslumiðlun sem er óháð raunafkomu hvers einstaklings, breytingum sem verða á tekjum hans. Í mínu frumvarpi er gert ráð fyrir að miða við greiðslugetu þannig að raunveruleg breyting á aðstæðum hvers og eins kalli fram möguleika á að laga greiðslubyrði lánanna að þeirri greiðslugetu. Gildissviðið er sem sagt víðtækara og nær til allra skulda en ekki bara fasteignaveðlána sem ég held að menn verði að taka á. Í þjóðfélaginu hafa mjög margir skuldsett sig mikið á síðustu fimm árum eða svo og kannski má segja óskynsamlega mikið því að menn eiga alltaf að vera ábyrgir gerða sinna. Hver og einn átti auðvitað að vega og meta hvað hann þorði að steypa sér út í miklar skuldir en reyndin er sú að margir hafa steypt sér í miklu meiri skuldir en skynsamlegt er. Við því verðum við að bregðast með því að gefa viðkomandi svigrúm til þess að laga greiðslubyrðina af lánasafninu að tekjunum eins og þær koma til með að verða á meðan við göngum í gegnum þessa erfiðleika.

Ég geri líka ráð fyrir tveimur öðrum atriðum sem eru frábrugðin frumvarpi hæstv. ríkisstjórnar. Að sett sé ákvæði inn í lög sem ver skuldara fyrir nauðungarsölu og beiðni um gjaldþrot og ég held að nauðsynlegt sé að setja varúðarákvæði inn í lög til þess að verja hagsmuni einstaklinga á þeim árum sem í hönd fara, hvort sem það tekur tvö, þrjú eða fjögur ár að fara í gegnum þessa erfiðleika, því að við höfum engan ávinning af því að kannski þúsund manns verði gerðir gjaldþrota eða tíu þúsund bornir út úr sínum íbúðum. Þá er miklu skynsamlegra að gera ráðstafanir til þess að menn geti borgað, eins og áður var, svipað hlutfall af sínum tekjum og síðan þegar rofar til fari hlutirnir aftur í fyrra horf. Ég held að með því væri meira unnið og mönnum gæfist líka tækifæri á að ná saman um nýja efnahagsstefnu sem ég held að hljóti að vera lykillinn til lengri tíma litið. Nýja efnahagsstefnu sem færi okkur stöðugleika og mjög lága verðbólgu. Það er í raun og veru verkefnið sem fyrst og fremst bíður ríkisstjórnarinnar að mínu mati, að koma sér saman um þá áætlun og hrinda henni í framkvæmd. Að því verkefni þarf að vinna núna og menn þurfa að ná árangri á því sviði á mjög skömmum tíma. Ég held að það væri mikið óráð ef menn færu að steypa þjóðfélaginu út í harðar deilur um stór málefni sem lúta ekki að þessu eða skapa mikið uppnám að öðru leyti því að þetta verkefni er svo mikilvægt. Það snertir alla í þessu þjóðfélagi og ekkert annað má skyggja á það. Allir verða að leggja sig fram við það. Við búum að mörgu leyti við ákjósanleg skilyrði til þess að koma á nýrri efnahagsstefnu sem er fólgin í eignarhaldi ríkisins á viðskiptabönkunum. Það erfiðasta sem glímt var við í þjóðarsáttinni árið 1990 var að fá bankana til að taka þátt og leggja sitt af mörkum því að þeir vildu alltaf spila frítt. Núna höfum við tök á bönkunum og það er mjög sterkt að geta ráðið meginlínum í þeim efnum með eignarhaldi ríkisins á viðskiptabönkunum.

Fleiri orð ætla ég ekki að hafa um þetta mál, virðulegi forseti, en kannski bæti ég einhverju við síðar.