136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:37]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hlutirnir ganga stundum í bylgjum og það á við um fasteignaverð og þá sérstaklega fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur hækkað um 100% á fjórum árum. Yfir áratugi hefur það að meðaltali hækkað um 1% á ári að raungildi, en meðaltalið er ekki það sama og raunveruleikinn á hverjum tíma. Menn geta t.d. tekið þriggja ára tímabil og sagt sem svo: Á þessu tímabili er eignin í viðkomandi íbúð að hverfa vegna þess að hún fellur í verði borið saman við lánin sem á henni hvíla.

Taka má annað þriggja ára tímabil, kannski þar á undan, sem sýnir hið gagnstæða. Á þeim tíma hefur kannski orðið gríðarleg eignamyndun í þessum sömu eignum án þess að nokkuð væri lagt í það, án þess að íbúðareigandinn legði eina einustu krónu í að skapa þá eign. Það hefur átt við um fasteignir hér á höfuðborgarsvæðinu. Þær hafa hækkað svo mikið á undanförnum fjórum til fimm árum að tugir þúsunda manna ef ekki hundruð hafa skyndilega eignast háar fjárhæðir í eigin fé án þess að hafa nokkuð haft fyrir því. Það er með það eins og annað sem kemur fyrirhafnarlítið upp í hendurnar að það getur farið jafnfyrirhafnarlítið úr höndum manna á nýjan leik. Það er það sem er að gerast núna. Þegar menn meta þetta þarf að horfa til lengri tíma.

Við höfum líka dæmi um annan veruleika. Á landsbyggðinni hafa fasteignir lækkað í verði og er á sumum stöðum kannski bara 1/4 af því sem það var fyrir tæpum 20 árum. Þúsundir manna hafa lent í þeirri stöðu um allt land. Það hefur ekki verið úrræðið að strika skuldirnar út í þeim tilvikum. Engin mótmælaganga hefur verið farin hér á höfuðborgarsvæðinu til að krefjast þess að skuldir þess fólks væru strikaðar út. Þetta fólk fékk greiðsluaðlögun og annað slíkt, það voru almenn úrræði á þeim tíma, en hver maður varð að borga skuldir sínar. Þannig er það bara, virðulegi forseti.