136. löggjafarþing — 28. fundur,  17. nóv. 2008.

greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga.

159. mál
[17:54]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Við veltum fyrir okkur hvað þetta kostar mikið. Setjum við ekki að allt of lítið í það að hjálpa þeim sem eiga í mestum erfiðleikum? Hversu margar fjölskyldur eru að missa húsnæði sitt, íbúðirnar sínar og fara í nauðungaruppboð? Það hlýtur að vera hægt að gera einhverja könnun á því í bankakerfinu hversu margir eiga ekki fyrir skuldum.

Það er ótrúlegt að fimm eða sex vikum eftir að bankarnir hrundu vitum við ekkert og fáum ekkert að vita. Við erum í lausu lofti með allar upplýsingar og engum spurningum er hægt að svara. Þetta er nokkuð sem við þurfum að fá að vita: Hvað eru þetta margar fjölskyldur? Hversu stórt er vandamálið? Hvað horfum við upp á marga sem lenda í gjaldþroti?

Ég bendi á það að við í Frjálslynda flokknum lögðum það til strax í vikunni eftir að bankarnir hrundu að skuldir heimilanna yrðu frystar tímabundið, bæði erlendu lánin og eins verðtryggðu lánin. Verðtryggingin er auðvitað mikill bölvaldur og hleður alltaf upp skuldum hjá fólki og við þurfum að losna undan henni, það er mjög nauðsynlegt. Þegar íslenska ríkið á orðið allt bankakerfið er hægt að gera hlutina með öðrum hætti en við höfum gert og við þurfum að taka á og gera miklu betur varðandi fjölskyldurnar í landinu. Við þurfum að setja miklu meiri peninga í þær eða fresta greiðslum á miklum peningum hjá þeim í bili.