136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

einkavæðing í heilbrigðisþjónustu.

[10:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ástæða til að leiðrétta sitthvað sem fram kom í máli hv. þm. Ástu Möller og þótt ég hafi ekki mikinn tíma til slíks þá verð ég þó að segja eitt.

Hv. þingmaður gerir því skóna að útboðsstefnan sé óbeint á ábyrgð Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að því leyti að byggt sé á lagafrumvarpi sem við höfum samþykkt. Staðreyndin er sú að sá hluti lagafrumvarpsins sem lýtur að útboðunum var á sínum tíma afgreiddur með gagnatkvæðum okkar. Við lögðumst gegn þeim hluta þessa lagabálks. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar ítrekað haldið uppi rangtúlkunum um þetta efni og mér finnst ástæða, hæstv. forseti, til að leiðrétta þetta því rétt skal vera rétt. Sjálfstæðisflokkurinn er fylgjandi einkarekstri í heilbrigðisþjónustunni. Það er hans skoðun. Hann hefur rétt á því að hafa þá skoðun, berjast fyrir henni og reyna að koma henni í framkvæmd. Við höfum aðra skoðun og það er beinlínis óheiðarlegt að halda uppi málflutningi eins og hv. þm. Ásta Möller gerði áðan.