136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:25]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. utanríkisráðherra lét undir höfuð leggjast að svara spurningunni sem ég lagði fyrir hana. Voru það vinnureglur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem ákvörðuðu það að trúnaði var haldið á skilyrðunum fram á mánudaginn var eða var það ákvörðun ríkisstjórnar Íslands?

Ég vil bera fram aðra spurningu til hæstv. utanríkisráðherra. Hún sagði í ræðu sinni: Þetta er okkar áætlun, og bar mjög af sér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði tekið við völdum og stjórn efnahagsmála á Íslandi.

Er það líka áætlun íslensku ríkisstjórnarinnar að hækka stýrivexti úr 12% upp í 18% eins og gert var fyrir skemmstu og jafnvel enn meira í nánustu framtíð? Er það stefna íslensku ríkisstjórnarinnar?