136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[12:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get staðfest að þetta eru vinnureglur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og það hefur komið skýrt fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hjá sjóðnum að áætlanirnar fari ekki út fyrr en þær hafa verið lagðar fram á stjórnarfundi í sjóðnum. Við fengum undanþágu frá því núna á sunnudaginn og gátum því birt áætlunina á mánudaginn vegna þess að þá var búið að festa niður stjórnarfundinn á miðvikudaginn. Við höfðum beðið lengi og sagt þeim að mjög erfitt væri fyrir okkur að geta ekki birt áætlunina. Fyrir því fékkst samþykki, enda var áætlunin þá farin til stjórnarmanna, þótt reglan sé sú hjá sjóðnum að leyfa slíkt ekki fyrr en áætlun hefur verið lögð fram á stjórnarfundi.

Varðandi áætlunina segi ég að hún sé okkar. Hún var unnin í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hér voru fulltrúar frá sjóðnum. En við berum ábyrgð á áætluninni. Ég ætla ekki að vísa frá mér ábyrgð á því sem stendur í henni og vísa bara á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að það sé honum að kenna eða hann beri ábyrgð á þessu. Við settum þetta fram, ríkisstjórnin og Seðlabankinn. (Forseti hringir.) Við sömdum um þetta og þar af leiðandi hlýtur þetta að vera okkar áætlun. Varðandi 18% vextina þá er það Seðlabankinn sem ákveður stýrivexti en ekki ríkisstjórnin.