136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[14:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni að þetta eru sorglegar kringumstæður sem við búum við í dag. Hann telur að það sé vegna lélegrar ríkisstjórnar en ég held að honum hafi þótt ríkisstjórnin léleg löngu áður en til þeirra atburða kom (Gripið fram í.) sem við fjöllum hér um. Ég veit því ekki hvort hægt er að halda því fram að hann dragi rökréttar ályktanir af stöðu mála nú.

Við skulum líka hafa í huga að það er í fleiri löndum en á Íslandi sem bankar hafa fallið. Það eru fleiri bankakerfi í heiminum sem hafa verið ríkisvædd en íslenska bankakerfið. Það má raunar segja að flest bankakerfi heimsins hafi verið ríkisvædd. Ef það er allt saman lélegri ríkisstjórn á Íslandi að kenna þá eru völd okkar og áhrif meiri en ég hef haldið að þau væru hingað til.

Vilji og geta er ekki það sama, segir hv. þingmaður. Það er út af fyrir sig rétt hjá honum. Menn hafa talað um að það skorti á faglegheit í yfirstjórn Seðlabankans. Ég held ég muni það rétt, ég hef heyrt það einhvers staðar, að 45 hagfræðingar starfi í Seðlabankanum. Það skortir örugglega ekkert upp á þar. Ef menn vilja beita þar faglegri stjórnun þá er getan fyrir hendi og ég er sannfærður um að hvort tveggja er fyrir hendi í þessu tilfelli.

Að bíta frá okkur — út af fyrir sig er það rétt hjá hv. þingmanni að nauðsynlegt er að geta bitið frá sér. Það er líka nauðsynlegt að vita hvenær rétt er að gera það og hvenær ekki er rétt að gera það. Hvenær er rétt að fara samningaleiðina og hvenær er rétt að taka slagsmálin? Og að líkja landhelgisstríðunum við þá stöðu sem við erum í núna er bara rangt, það er slæm samlíking. Hv. þingmaður þarf að skoða aðeins betur í hvaða stöðu við erum í þessari deilu og bera það aðeins betur saman við þá (Forseti hringir.) stöðu sem við vorum í í landhelgisdeilunum.