136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:15]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni hreinskilin svör og sýn hans á málið. Ég tel að afar óheppilegt hafi verið að þetta mál skuli ekki hafa verið tekið upp á mánudaginn og þá með afbrigðum eða aukafundur settur á þriðjudaginn til að Alþingi færi yfir skilyrðin og kæmi þeim skilaboðum sem héðan eiga að koma til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins áður en gengið var frá samkomulaginu.

Við íslenska þjóðin verðum að skapa okkur traust bæði hér innan lands, Alþingi og stjórnvöld gagnvart almenningi og landið sem heild gagnvart umheiminum og öðrum ríkisstjórnum og þingum. Ég get vel skilið að það mundi rugga bátnum aftur ef við ryfum þetta samkomulag. Að sama skapi finnst mér mjög mikilvægt að Alþingi opni þennan glugga og setji þann fyrirvara að hægt sé að endurskoða ákvæðin hið allra fyrsta og þá vil ég sérstaklega horfa til kröfunnar um háa vexti. Þegar við tölum við fólk sem er úti í atvinnulífinu núna, alveg sama í hvaða grein, þá eru það háu vextirnir sem eru að drepa atvinnulífið í landinu. Í hverju einasta fyrirtæki og iðngrein er sagt: Ef vextir verða ekki lækkaðir á næstu dögum fara fyrirtækin fyrir áramótin.

Við verðum að hafa möguleika til þess að standa vörð um atvinnulífið, að hjólin stöðvist ekki. Það verður ekki gert því við fórnum atvinnulífinu í landinu ef við ætlum að halda þessum háu vöxtum áfram.