136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við reynum einmitt að koma í veg fyrir að hér verði stórkostleg fjöldagjaldþrot og félagsleg vandamál sem þeim fylgja. Þess vegna skiptir máli að við náum stöðugleika í gjaldmiðilinn sem fyrst og verðbólgukúfurinn verði sem minnstur og aðgerðirnar, sem lagt hefur verið í til að hjálpa fólki við að komast í gegnum erfiðleikana, virki. Verið er að fara í fjölmargar aðgerðir í þeim tilgangi.

Hluti af því að skattbyrði framtíðarinnar verði sem minnst er að ná þeim peningum til baka sem við þurfum að setja inn í endurreisn bankanna. Þannig að hinn almenni skattborgari borgi ekki vexti af þeim fjármunum langt inn í framtíðina.

Þó að ýmislegt hafi misfarist í bönkunum á síðustu missirum var ýmislegt gott gert þar á fyrri tímum eftir einkavæðinguna og það getum við séð gerast aftur. Það er í samræmi við hvernig nú er lagt upp með að endurreisa fjármálakerfi heimsins og það hefur viljað gleymast í umræðunni að fleiri en við glíma við slík vandamál og að grunni til eru þau ekki bara heimatilbúin. Við skulum minnast þess.

Það vantar ekkert á það að stjórnvöld séu tilbúin til að reyna að gera þetta þannig að það snerti heimilin sem minnst. En við skulum líka horfast í augu við það að þetta mun koma við okkur öll á einn eða annan hátt.