136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

eftirlaunalög o.fl.

[10:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég verð að játa að ég átta mig ekki alveg á þeirri spurningu sem til mín var beint af hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur sem fór yfir ýmislegt sem hún ber fyrir brjósti og á henni hvílir. (Gripið fram í.) Hún talaði um framkomu Samfylkingarinnar, um ágreining í ríkisstjórninni, um skoðanir ýmis samfylkingarfólks, um væntanlegt eftirlaunafrumvarp og um gamalt frumvarp frá Halldóri Ásgrímssyni. Ég get alveg sagt þingmanninum að hugmyndir mínar um það hvernig breyta eigi eftirlaunalögunum eru annars eðlis en þær hugmyndir sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, kom fram með á sínum tíma. Ef það getur friðað þingmanninn eitthvað get ég látið það koma fram að hugmyndir mínar um þetta eru annars eðlis en hugmyndir hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar.

Hvað varðar Samfylkinguna þá er Samfylkingin stór flokkur og í okkar húsi eru margar vistarverur og fólk getur haft nokkuð mismunandi skoðanir og það á ekki að koma hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur á óvart miðað við þann örflokk sem hún er í núna þar sem fjöldinn allur af skoðunum er uppi og ekki nóg með það (Gripið fram í.) heldur geta menn ekki einu sinni haldist við í þeim flokki vegna skoðanaágreinings. Það á ekki við um Samfylkinguna, þó að þar geti fólk haft eitthvað mismunandi skoðanir á hlutunum helst það ágætlega við þar og getur alveg rætt það og getur líka rætt það við samstarfsflokkinn án þess að það þurfi að leiða til þess að menn stökkvi fyrir borð unnvörpum.