136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:25]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við höfum horft upp á algert bankahrun í landinu og það er auðvitað mjög erfitt að eiga við það því að menn gera aldrei ráð fyrir að lenda í slíku. Engar handbækur eru til um hvernig bregðast á við í slíkri stöðu og þess vegna vakna auðvitað upp geysilega margar spurningar. Það er alveg ljóst að mjög mikið vantraust ríkir í samfélaginu. Í bönkunum eru lykilstjórnendur nánast allir þeir sömu og voru í gömlu bönkunum. Það er vegna þess að menn reyna að halda í sérþekkingu en á sama tíma skapar þetta ákveðið vantraust. Menn verða að hafa það í huga.

Við framsóknarmenn teljum að mikilvægt sé að ráðast sem fyrst í endurskipulagningu bankakerfisins. Markmiðið í þeirri endurskoðun verði að koma bönkunum úr ríkiseigu, það sé ekki eðlilegt að ríkið eigi bankana frekar en það eigi önnur fyrirtæki á þeim markaði. Við teljum mjög mikilvægt að söluferlið verði gagnsætt. Við höfum reynslu af bankasölu sem var gagnrýnd mjög á sínum tíma og það er alveg ljóst að menn verða að vanda sig og hafa ferlið eins gagnsætt og hægt er. Við teljum líka að mjög vel komi til greina að hluti bankakerfisins sé í erlendri eigu. Það er svo stutt í einokun í alls konar fyrirtækjarekstri á Íslandi og því erum við opin fyrir því að hluti bankakerfisins verði í erlendri eigu.

Við teljum líka mikilvægt að settar verði mjög skýrar reglur um hvernig verður farið með afskriftir skulda og skuldbreytingu viðskiptavina í nýju ríkisbönkunum og við vörum mjög við því að beitt verði pólitísku valdi varðandi það. Þessi mál verða að vera á viðskiptalegum grunni, aðeins á viðskiptalegum grunni. Ég vil rifja það upp sem Agnes Bragadóttir sagði í Morgunblaðinu að geysileg reiði væri innan bankakerfisins og meðal kröfuhafa af því að menn hafa á tilfinningunni að ekki sé farið eins með alla.

Að lokum vil ég segja að það veldur mér miklum vonbrigðum (Forseti hringir.) að sjá hvernig gengið er fram hjá konum þegar verið er að skipa í stöður í nýju bönkunum. Ríkið á að ganga fyrir (Forseti hringir.) með gott fordæmi og fjölga konum í lykilstjórnunarstöðum en ekki fækka þeim.